Skoðun

Sam­vinna er eitt en sam­runi allt annað

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Merkileg grein birtist í Morgunblaðinu 1. desember síðastliðinn. Fullveldisdag okkar Íslendinga. Þar hélt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar á pennanum. Var henni tíðrætt um sæti Íslands við borðið á alþjóðavettvangi en minntist hins vegar ekkert á Evrópusambandið í þeim efnum þrátt fyrir að öllum hafi væntanlega verið ljóst hver væru undirliggjandi skilaboðin. Það er að segja innganga landsins í sambandið.

„Sæti Íslands við borðið, hvort sem það hefur verið hjá Atlantshafsbandalaginu eða EFTA, hefur styrkt fullveldi Íslands,“ sagði Þorgerður þannig meðal annars í greininni. Hins vegar fjalla Atlantshafsbandalagið (NATO) og Fríverzlunarsamtök Evrópu (EFTA) ekki aðeins um mjög afmörkuð svið, annars vegar varnarmál og hins vegar fríverzlun, heldur eru ákvarðanir í báðum tilfellum teknar með einróma samþykki ólíkt því sem gerist innan Evrópusambandsins.

Með inngöngu í Evrópusambandið er valdið yfir nær öllum málaflokkum ríkja framselt til stofnana þess og einróma samþykki heyrir til undantekninga en var áður reglan. Í flestum tilfellum fer vægi ríkja innan sambandsins eftir því hversu fjölmenn þau eru. Til að mynda yrði vægi Íslands innan ráðherraráðs þess, valdamestu stofnunarinnar, allajafna einungis 0,08% eða á við 5% hlutdeild í einum alþingismanni. Þetta yrði sætið við borðið innan Evrópusambandsins.

Með öðrum orðum var Þorgerður að bera saman epli og appelsínur. Alþjóðlegt samstarf sem er til þess fallið að styrkja fullveldi landsins og hagsmuni íslenzku þjóðarinnar er vitanlega af hinu góða. Hins vegar er Evrópusambandið komið langt út fyrir það að geta talizt alþjóðlegt samstarf með einhverjum eðlilegum formerkjum. Enda hefur þar á bæ verið leynt og ljóst stefnt að því frá upphafi að til yrði sambandsríki. Samvinna er eitt en samruni hins vegar allt annað.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×