Fótbolti

Eig­endur Juventus vildu ekki selja og nú þurfa leik­menn að sanna sig

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Luciano Spalletti er fullur af hugmyndum um hvernig Juventus getur rétt gengi sitt af.
Luciano Spalletti er fullur af hugmyndum um hvernig Juventus getur rétt gengi sitt af. Image Photo Agency/Getty Images

Agnelli fjölskyldan, sem á meirihluta í ítalska fótboltaliðinu Juventus, hafnaði kauptilboði frá rafmyntafyrirtækinu Tether. Nú segir þjálfarinn Luciano Spalletti komið að leikmönnum að sanna skuldbindingu sína gagnvart félaginu.

Tether bauðst til að staðgreiða 65,4 prósenta hlut Agnelli fjölskyldunnar í Juventus, fyrir upphæð sem talin er vera um 1,1 milljarður punda. Agnelli fjölskyldan hafnaði tilboðinu.

„Juve hefur verið hluti af fjölskyldunni í 102 ár“ sagði í myndbandi sem birtist á heimasíðu Juventus.

„Juve, er líka hluti af miklu, miklu stærri fjölskyldu. Svarthvíta fjölskyldan sem samanstendur af milljónum aðdáenda á Ítalíu og út um allan heim, sem elska Juve eins og ástvini“ sagði einnig í myndbandinu.

Juventus vann ítölsku úrvalsdeildinni í níunda sinn í röð árið 2020 en hefur síðan ekkert tekið þátt í titilbaráttu. Napoli ásamt Mílanóliðunum Inter og AC hafa tekið yfir ítalska boltann og Juventus hefur dregist aftur úr.

Liðið hefur skipt fimm sinnum um þjálfara síðan 2020 og síðast í október, þegar Luciano Spalletti tók við störfum.

„Þó ég hafi bara verið hér í stuttan tíma tel ég mig geta talað fyrir hönd allra hjá félaginu. Við njótum góðs af styrknum og ástríðunni sem fjölskyldan hefur sýnt þessu félagi. Nú er skýrt að það er komið að okkur að sýna sömu skuldbindingu“ sagði Spalletti á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Bologna í dag.

Liðið hefur aðeins unnið tvo af fyrstu fimm leikjunum undir hans stjórn en getur með sigri í dag komist upp fyrir Bologna í fimmta sæti deildarinnar.

„Enginn getur sagt mér að þessir leikmenn séu ekki nógu góðir. Þvert á móti, það eru önnur vandamál sem við verðum að yfirstíga. Ég tók við starfinu því ég hafði trú á þeim. Ég hef starfað sem þjálfari í mörg ár og veit að það verður ekki auðvelt, en ég er heltekinn af hugmyndum um hvernig á að breyta og bæta“ sagði Spalletti einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×