Skoðun

Stjórn­völd beita sleggjunni og ferða­þjónustan á að liggja undir höggum

Þórir Garðarsson skrifar

Það sem ég varaði við í grein á Vísi 1. desember síðastliðinn er því miður að raungerast. Eftir að hafa hlustað á viðtal við forsætisráðherra, þar sem talað var um ferðaþjónustuna með þeim hætti að skilja mátti orð hennar þannig að greinin væri hálfgerður samfélagslegur baggi, er nú orðið ljóst hvert stefnir.

Stjórnvöld virðast staðráðin í að draga úr umfangi ferðaþjónustunnar með markvissri aukningu álaga í þeirri von eða trú að ferðamönnum fækki.

Á sama tíma er aukið við ívilnanir til útgerða skemmtiferðaskipa, á meðan „landkrabbarnir“ – hótel, gistiheimili, veitingastaðir og afþreying um allt land eiga að bera byrðarnar.

Staðreyndirnar tala sínu máli

Árið 2018 komu til Íslands rúmlega 2,3 milljónir erlendra farþega með flugi um Keflavíkurflugvöll. Á sama tíma komu um 145 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur.

Sex árum síðar, árið 2024, eru erlendir flugfarþegar enn aðeins tæplega 2,3 milljónir. Ferðamönnum með flugi hefur því ekkert fjölgað frá 2018, þrátt fyrir mikinn vöxt í umræðu og umsvifum greinarinnar. Á sama tíma hefur farþegum með skemmtiferðaskipum fjölgað verulega og voru þeir um 322 þúsund árið 2024.

Skekkjan sem stjórnvöld horfa fram hjá

Í tölum um flugfarþega um Keflavíkurflugvöll er verulegur fjöldi skiptifarþega skemmtiferðaskipa farþegar sem fljúga til landsins fara í flestum tilfellum beint um borð í hótelskip og neyta þar fullrar skattfrjálsrar þjónustu, kaupa hvorki gistingu né mat á landi.

Raunfjöldi þeirra ferðamanna sem dvelja á Íslandi, ferðast um landið og kaupa staðbundna þjónustu mat, gistingu, afþreyingu og innanlandsferðir hefur því í reynd fækkað.

Afleiðingarnar liggja fyrir

Aukin skattheimta á ferðaþjónustu á landi mun:

  • fækka enn frekar ferðamönnum sem ferðast um landið,
  • bitna harðast á ferðaþjónustu á landsbyggðinni,
  • veikja rekstur hótela og gistiheimila sem njóta engra afslátta eða ívilnana, ólíkt hótelskipunum,
  • draga úr tekjum sveitarfélaga og samfélaga sem byggja afkomu sína á ferðamönnum sem dvelja á landi.

Á sama tíma njóta útgerðir skemmtiferðaskipa skattaívilnana og sérmeðferðar, sem skapar augljóst ósamræmi og óréttlæti í skattalegri meðferð ferðaþjónustunnar.

Niðurstaðan er skýr

Stjórnvöld hafa fundið sleggjuna – og henni á að beita til að berja niður innlenda ferðaþjónustu.

Ekki með markvissri stefnu, ekki með jafnræði eða sanngirni, heldur með auknum álögum á þá sem skapa verðmæti á landi, um allt land.

Spurningin er einföld:

Er markmiðið að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu eða að keyra hana markvisst niður?

Höfundur er fyrrverandi varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Sjá meira


×