Handbolti

EM ekki í hættu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gísli Þorgeir í leik með íslenska landsliðinu. 
Gísli Þorgeir í leik með íslenska landsliðinu. 

Meiðsli Gísla Þorgeirs Kristjánssonar reyndust ekki alvarleg og mætti hann aftur út á gólf um helgina. Þau munu ekki hafa áhrif á Evrópumótið í næsta mánuði. Íslenski landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk slæmt högg á síðuna í leik með Magdeburg í þýsku Bundesligunni gegn Melsungen í síðustu viku.

Þá fékk hann slæma byltu og þurfti að fara af velli. Hann harkaði af sér og kom aftur inn í seinni hálfleikinn en var greinilega þjáður.

Gísli fór í kjölfarið í skoðun hjá lækni eftir leikinn og var mættur aftur með liði sínu í Íslendingaslag Madgeburg og Gummersbach sem vannst með einu marki á sunnudaginn. Þá skoraði Gísli fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar.

„Ég var smá þjáður en var alveg í miklu samráði við læknana um hver staðan væri. Ég náði að taka þátt í leiknum og það gekk bara mjög vel. Staðan á mér er bara mjög fín,“ segir Gísli Þorgeir í sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

„Fyrsta hugsunin var auðvitað þegar maður fær þetta högg er hvort þetta muni plaga mann eitthvað í janúar. Það er auðvitað við þennan tíma í desember, þegar það eru svona ótrúlega margir leikir en á sama tíma er svona stutt í stórmót, þá er þetta áhugaverður balans. Þú mátt ekki tapa leik en vilt heldur ekki meiða þig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×