Skoðun

Mann­réttinda­glufur og sam­göngu­glufur

Gunnar Ármannsson skrifar

Við þurfum göng ( fyrir nokkur hundruð manns) , við þurfum samgöngubætur ( fyrir mjög marga, eiginlega alla á Íslandi, loka þarf samgönguglufum), við þurfum betra loftslag (fyrir alla í heiminum), við þurfum að vera góð við flóttamenn (alla í heiminum) og við þurfum betra heilbrigðiskerfi ( á Íslandi, fyrir þá sem búa á Íslandi og hætta að brjóta mannréttindi á sjúklingum á bráðamóttöku, loka þarf mannréttindaglufum). Það eru forréttindi að vera Íslendingur og trúa því að við getum gert þetta allt. En er það raunhæft? Eða þurfum við kannski að forgangsraða? Og þá hvernig? Hvernig viljum við Íslendingar forgangsraða? Viljum við gott heilbrigðiskerfi fyrir okkur sjálf þar sem mannréttindi eru virt? Viljum við tryggja landsmönnum tryggar samgöngur um landið allan ársins hring? Eða er mögulega mikilvægara að huga að loftlagsmálum sem eru ekki vel skilgreind og torskilin? Eða eigum við að beina kröftum okkar að því að bjarga sem flestum flóttamönnum frá ánauð þeirra eigin yfirvalda? Við vorum í fortíðinni oft smá og fá. En áttum stórhuga einstaklinga sem vildu veg Íslands sem mestan. Nægir að nefna Jón Sigurðsson, Hannes Hafstein og Einar Benediktsson af seinni tíma mönnum sem börðust fyrir sjálfstæði og framförum Íslendingum til handa. En hvað höfum við nú? Umræðu um afsal okkar fullveldis? Inngöngu í ríkjasamband ríkja sem virðast ekki vita hvert þau stefna? Við eyðum tugum ef ekki hundruðum milljóna í að elta þennan flokk í loftlags og flóttamannamálum. Er ekki bara komið að því að gæta hófsemi og varúðar í þessum málaflokkum og taka þess í stað vel til í heilbrigðismálum þjóðarinnar? Eins og þjóðin hefur áður sýnt að hún hefur ríkan vilja til. Og næst einhendum við okkur í samgöngumálin.

Eða eins og þeir Cato gamli og Þórður Snær Júlíusson þreytast ekki á að segja okkur: „Carthago delenda est“ og „glufum verður að loka“.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×