Viðskipti innlent

Aron Kristinn stofnar goðsagnakennt fyrir­tæki

Agnar Már Másson skrifar
Legend ehf. nefnist nýja fyrirtæki Arons. Hann var fyrrum í danstvíeykinu ClubDub og rekur nú vörumerkið TakkTakk. Um þessar mundir kallar hann sig „AK Rizz“.
Legend ehf. nefnist nýja fyrirtæki Arons. Hann var fyrrum í danstvíeykinu ClubDub og rekur nú vörumerkið TakkTakk. Um þessar mundir kallar hann sig „AK Rizz“. Skjáskot/Instagram

Tónlistarmaðurinn og áhrifavaldurinn Aron Kristinn Jónasson, áður kenndur við ClubDub, hefur stofnað fyrirtækið Legend ehf. en félagið er meðal annars stofnað fyrir tónlistartengdan rekstur og rekstur fatamerkja.

Félagið var stofnað 26. nóvember og á Aron allan hlut í fyrirtækinu. 

„Þetta er bara í kringum reksturinn á mér,“ segir hann í stuttu samtali við Vísi en Mannlíf greindi fryst frá. Tónlistarmenn og hljómsveitir reka sig gjarnan í gegnum félög; hljómsveitin ClubDub var til dæmis rekin í gegnum félagið Klúbbasigur slf.

Samkvæmt gögnum frá skattinum er tilgangur félagsins framleiðsla, útgáfa og dreifing tónlistar, myndbanda og hvers kyns fjölmiðlaefnis, auk tónleikahalds og sviðslista. Einnig er tekið fram að félagið megi einnig stunda rekstur fatamerkja, markaðssetningu, vöruþróun og sölu á neti og í verslunum, en Aron rekur fatamerkið TakkTakk ásamt Bergþóri Mássyni áhrifavaldi og umboðsmanni.

Enn fremur má félagið stunda eignarhald og rekstur eigna, lánastarfsemi og skyldan rekstur. Félagið má taka þátt í öðrum félögum og verkefnum sem tengjast starfsemi þess.

Lára Portal viðskiptafræðingur, sem er kærasta og barnsmóðir Arons, er varamaður í stjórn félagsins en hún starfar hjá KPMG. 

Aron, nú einnig þekktur sem „Ak Rizz“, hætti í tvíeykinu ClubDub í sumar en gustað hafði nokkuð um hinn helminginn, Brynjar Barkarson, sem hafði talað um útlendingamál á nokkuð hispurslausan hátt og var meðal ræðumanna á umdeildum mótmælum, þar sem hópur fólks kom saman og krafðist breytinga á móttöku hælisleitenda til Íslands.

Aron hefur þó átt í nógu að snúast síðan þá, hefur gefið út tónlist undir eigin nafni og rekið fyrrnefnt vörumerki. Auk þess urðu þau Lára foreldrar í sumar, þegar dóttir þeirra kom inn í heiminn.


Tengdar fréttir

Aron Kristinn orðinn pabbi

Aron Kristinn Jónasson, söngvari og athafnamaður, og Lára Portal viðskiptafræðingur hafa eignast dóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×