Handbolti

Haukur með sjö mörk og Mag­deburg rétt marði botn­liðið

Aron Guðmundsson skrifar
Gísli Þorgeir var drjúgur fyrir Magdeburg í dag.
Gísli Þorgeir var drjúgur fyrir Magdeburg í dag. Marius Becker/Getty Images

Topplið Magdeburgar slapp með skrekkinn gegn botnliði Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Á sama tíma átti Haukur Þrastarson flottan leik fyrir Rhein Neckar-Löwen.

Tólf íslensk mörk litu dagsins ljós í eins marks sigri toppliðs Magdeburgar á botnliði Leipzig, lokatölur 29-28, Magdeburg í vil.

Sem fyrr voru íslensku leikmenn Magdebugar iðnir við kolann. Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og lagði upp eitt, Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fjögur mörk og lagði upp þrjú og þá skoraði Elvar Örn Jónsson tvö mörk. Blær Hinriksson komst ekki á blað hjá Leipzig. 

Sigurinn sér til þess að Magdeburg er með sex stiga forskot á Flensburg. Leipzig vermir botnsætið.

Frábær Haukur Þrastarson

Fyrr í dag hafði Rhein Neckar-Löwen svo betur gegn HSV með 35 mörkum gegn 29. Haukur Þrastarson fór mikinn í liði Löwen í dag og skoraði sjö af mörkum liðsins en Einar Þorsteinn Ólafsson spilaði fyrir HSV. 

Haukur Þrastarson í leik með Löwen

Með sigrinum lyftir Löwen sér upp í 7.sæti deildarinnar þar er liðið með 20 stig, þremur stigum minna en Gummersbach í 6.sæti.

Elliði og Teitur í sigurliði

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach höfðu einmitt betur gegn Stuttgart núna rétt áðan. 

Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari GummersbachVísir/Getty

Lokatölur urðu 28-22, sex marka sigur Gummersbach. Elliði Viðarsson, sem skrifaði á dögunum undir nýjan samning við Gummersbach, skoraði þrjú mörk í leiknum. Þá skoraði Teitur Örn Einarsson tvö mörk fyrir liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×