Fótbolti

Af­kára­legt fagn hjá hetju Sambíu

Sindri Sverrisson skrifar
Patson Daka fagnaði með ansi skrautlegum hætti eftir jöfnunarmark sitt í uppbótartíma.
Patson Daka fagnaði með ansi skrautlegum hætti eftir jöfnunarmark sitt í uppbótartíma. Skjáskot/Twitter

Leicester-framherjinn Patson Daka reyndist hetja Sambíu á Afríkumótinu í fótbolta í dag en fagnið hans vakti ekki síður athygli.

Malí og Sambía gerðu 1-1 jafntefli í A-riðli, þar sem Marokkó er á toppnum eftir 2-0 sigur gegn Kómoreyjum í fyrsta leik.

Lassine Sinayoko kom Malí yfir eftir klukkutíma leik og staðan var 1-0 fram á aðra mínútu uppbótartíma þegar Daka tókst að koma boltanum í netið og tryggja Sambíu stig. 

Því ætlaði hann að fagna með miklum fimleikatöktum en rann til og úr varð býsna skondið fagn eins og sjá má.

Í B-riðli vann Suður-Afríka 2-1 sigur gegn Angóla. Liðin eru í riðli með Simbabve og Mohamed Salah og félögum í egypska landsliðinu, sem mætast í kvöld.

Oswin Appollis kom Suður-Afríku yfir á 21. mínútu en Manuel Cafumana, eða Show, jafnaði metin fyrir Angóla á 35. mínútu.

Það var svo Lyle Foster, sem skorað hefur tvö mörk fyrir Burnley í ensku úrvalsdeildinni í vetur, sem tryggði Suður-Afríku sigurinn á 79. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×