Innlent

Keyptu að­stoð vegna leið­réttingar landsframlags og hring­ferðar ráð­herra

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jóhann Páll Jóhannsson tók við embætti umhverfis- orku, og loftslagsráðherra af Guðlaugi Þór Þórðarsyni í desember í fyrra. 
Jóhann Páll Jóhannsson tók við embætti umhverfis- orku, og loftslagsráðherra af Guðlaugi Þór Þórðarsyni í desember í fyrra.  Vísir/Anton Brink/Ívar

Kostnaður umhverfis- orku, og loftslagsráðuneytisins vegna kaupa á þjónustu frá almannatenglum og auglýsingastofum hefur numið hátt í einni milljón króna á þessu ári, sem er um fjögur hundruð þúsund krónum minna en ráðuneytið varði í slíka þjónustu í fyrra. Ráðuneytið naut meðal annars aðstoðar slíkra sérfræðinga í tengslum við hringferð ráðherra um orkumál í fyrra og vegna leiðréttingar á landsákvörðuðu framlagi Íslands gagnvart Parísarsamningnum.

Þá segist ráðuneytið hafa lagt sérstaka áherslu á það á þessu ári að lágmarka kostnað vegna aðkeyptrar þjónustu og nýta þess í stað betur krafta starfsfólks ráðuneytisins.

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu, en Vísir hefur undanfarna daga fjallað um kostnað stjórnarráðsins vegna kaupa á þjónustu almannatengla.

Í ár hefur ráðuneytið keypt slíka þjónustu af ráðgjafafyrirtækinu Aton ehf. fyrir samtals 933.300 krónur án virðisaukaskatts í tengslum við tvö verkefni. Annars vegar í tengslum við stefnumótun um málefni svæða sem reiða sig á rafmagn til húshitunar og nam reikningur vegna þessa 402.000 krónum í aprílmánuði. Hins vegar greiddi ráðuneytið Aton 531.300 krónur í júní á þessu ári fyrir greiningu og ráðgjöf vegna leiðréttingar á landsákvörðuðu framlagi Íslands gagnvart Parísarsamningnum.

Sjá einnig: For­sætis­ráðu­neytið eyddi meiru í al­manna­tengla í fyrra en í ár

Í fyrra nam kostnaður sama ráðuneytis vegna kaupa á slíkri þjónustu sem spurt var um samtals 1.337.800 krónum og hefur þannig lækkað lítillega milli ára. 

Árið 2024 keypti ráðuneytið þjónustu af fyrirtækinu Sahara í tengslum við hringferð þáverandi ráðherra um orkumál að því er fram kemur í svarinu. Guðlaugur Þór Þórðarson gegndi embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra svo gott sem allt árið í fyrra, eða þar til ný ríkisstjórn tók við völdum seint í desember á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×