Sport

Spennutryllir eftir tvö burst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jermaine Wattimena og Gary Anderson mættust í frábærum leik í 32-manna úrslitum á HM í pílukasti.
Jermaine Wattimena og Gary Anderson mættust í frábærum leik í 32-manna úrslitum á HM í pílukasti. getty/James Fearn

Lítil spenna var í fyrstu tveimur leikjum dagsins á heimsmeistaramótinu í pílukasti en þriðji leikurinn, milli Garys Anderson og Jermaine Wattimena, var kynngimagnaður.

Ryan Searle hóf daginn með því að rúlla yfir Martin Schindler, 4-0. 

Searle hefur verið afar sannfærandi á HM og ekki enn tapað setti á mótinu. Englendingurinn var með 102,29 í meðaltal gegn Schindler og vann níu síðustu leggina í leiknum.

Rob Cross, sem varð heimsmeistari 2018, sigraði Damon Heta einnig örugglega, 4-0.

Þriðji og síðasti leikurinn í fyrri hluta keppni dagsins var hins vegar gríðarlega spennandi.

Anderson komst í 3-1 gegn Wattimena en Hollendingurinn gafst ekki upp og jafnaði í 3-3.

Wattimena jafnaði aftur í 2-2 í oddasettinu og því réðust úrslitin í bráðabana. Þar reyndist Anderson sterkari og vann settið, 5-3, og leikinn, 4-3.

Skotinn fljúgandi var með 102,24 í meðaltal í leiknum og náði fjórtán sinnum 180. Hann var einnig hársbreidd frá því að ná níu pílna leik í bráðabananum.

Anderson varð heimsmeistari 2015 og 2016 og er nú kominn í sextán manna úrslitin þar sem hann mætir sigurvegaranum úr viðureign Michaels van Gerwen og Arnos Merk í kvöld.

Searle mætir James Hurrell í sextán manna úrslitunum og Cross etur kappi við heimsmeistarann Luke Littler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×