Skoðun

Kvennaár og hvað svo?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Steinunn Bragadóttir skrifa

Á Kvennaári 2025 höfum við tekið saman tölfræði og sett í samhengi við kröfur kvennaárs. Kröfurnar varða aðgerðir til að eyða kynbundnum launamun, jafna fjölskylduábyrgð og uppræta kynbundið ofbeldi. Greinarnar okkar sýna að þegar gögn eru rýnd í samhengi verður kynbundið ójafnrétti skýrara, ekki sem einstök frávik heldur sem afleiðing samverkandi þátta á mörgum sviðum samfélagsins.

Kynbundinn launamunur, fjölskylduábyrgð og öryggi kvenna

Vinnumarkaðurinn er mjög kynskiptur. Meirihluti þeirra sem mennta sig í heilbrigðis- og menntagreinum eru konur. Kynbundinn launamun má fyrst og fremst rekja til vanmats á þessum hefðbundnu kvennastörfum. Líkamlegt og tilfinningalegt álag sem oft einkennir þessi störf leiðir einnig til hærri örorkutíðni meðal kvenna en karla og eykur líkur á að konur endi starfsævina á örkulífeyri, en um 60% fólks með örorku eru konur.

Atvinnuþátttaka kvenna er að jafnaði minni en karla. Konur eru líka miklu líklegri til að vera í hlutastarfi, einkum vegna fjölskylduábyrgðar. Þetta hefur áhrif á kynbundinn mun í atvinnutekjum, sem og ævitekjum og veldur því að tekjur kvenna á efri árum eru mun lægri en tekjur karla. Konur á öllum aldri búa því síður við fjárhagslegt sjálfstæði en karlar. Þennan tekjumun má m.a. rekja til kynbundinna áhrifa barneigna. Konur taka meirihluta fæðingarorlofsdaga, brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og eru því lengur utan vinnumarkaðar vegna barnaeigna. Hefðbundin kynhlutverk birtast einnig í því að konur bera meiri ábyrgð á ólaunaðri vinnu sem tengist fjölskyldu- og heimilisábyrgð, sem hefur svo neikvæð áhrif á vinnutíma, starfsþróun og tekjur.

Konur í hópi innflytjenda búa einnig við lakari kjör og ótryggari stöðu en íslenskar konur að jafnaði. Tvöföld mismunun, vegna kyns og uppruna, birtist í lægri launum, lengri vinnutíma, ótryggari húsnæðisstöðu og verri andlegri heilsu.

Kynbunið ofbeldi er ógn við frelsi, heilsu og velferð kvenna. Fjórða hver kona hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi og fimma hver kona hefur orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum af hálfu maka eða fyrrum maka á lífsleiðinni. Ákveðnir hópar verða frekar fyrir misrétti og ofbeldi en aðrir og má þar nefna fatlaðar konur, kynsegin konur og konur af erlendum uppruna.

Við vitum hvað þarf að gera

Tölfræðileg samantekt okkar á kvennaári sýnir að kynjamisrétti verður hvorki skilið né leyst með því að horfa einangrað á einstaka mælikvarða. Kynjamisrétti verður til í samspili vinnumarkaðar, fjölskylduábyrgðar, velferðarkerfa og öryggis kvenna, sem kallar á samþættar og markvissar aðgerðir. Umfjöllun okkar um tvöfalda mismunun innflytjendakvenna undirstrikar líka þörfina á að tölfræði sé hægt að greina eftir uppruna.

Eitt skýrasta dæmið er umönnunarbiliðmilli fæðingarorlofs og leikskóla. Skortur á leikskólaplássum er ekki einkamál fjölskyldna ungra barna heldur ekki síður jafnréttismál og getur dregið úr atvinnuþátttöku, starfshlutfalli, tekjum og tækifærum kvenna á vinnumarkaði. Í kjölfar kjarasamninga vorið 2024 var settur starfshópur á laggirnar um brúun umönnunarbilsins með þátttöku fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem nú hefur skilað tillögum um að lögfesta rétt barna til leikskóladvalar að loknu fæðingarorlofi og gera rekstur leikskóla að lögbundnu hlutverki sveitarfélaga. Lagt er til að lögfesting eigi sér stað á árinu 2026 og að rétturinn verði innleiddur í skrefum á næstu árum.

Kannanir sem varpa ljósi á skiptingu ólaunaðrar vinnu sýna jafnframt að ekki er hægt að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði nema tekið sé á ójafnri skiptingu fjölskylduábyrgðar. Ójöfn nýting karla og kvenna á fæðingarorlofsdögum hefur þar áhrif og viðheldur ójafnri fjölskylduábyrgð frá upphafi þegar foreldrar eignast sitt fyrsta barn. Þrátt fyrir jafnan rétt foreldra nýta feður síður sinn rétt og taka að jafnaði um þremur mánuðum styttra fæðingarorlof en mæður, meðal annars vegna tekjutaps. Af því leiðir krafa um að greiðsluþak fæðingarorlofs verði hækkað þannig að feður hafi raunhæfan möguleika á fullri töku. Í tengslum við gerð kjarasamninga var þakið hækkað og verður það 900.000 kr. nú um áramótin. Mikilvægt er að greiðsluþakið rýrni ekki yfir tíma heldur hækki árlega og fylgi launaþróun.

Tölfræði um vinnumarkaðinn og launamun kynjanna dregur fram þörfina á að endurskoða virðismat starfa. Hefðbundin kvennastörf eru kerfisbundið vanmetin, þrátt fyrir menntun, ábyrgð og álag. Í tengslum við gerð kjarasamninga 2024 lýstu stjórnvöld því yfir að innleiða ætti í áföngum viðrismatskerfi á grunni tillagna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Tölfræði um kynbundið ofbeldi sem meira en fjórða hver kona verður fyrir kallar á raunverulega aðgerðir sem taka mið af margþættri mismunun og öryggisógn kvenna. Kvennasamtök hafa áratugum saman barist fyrir slíkum aðgerðum og má þar nefna forvarnir gegn ofbeldi, vernd brotaþola, bætta eftirfylgni í réttarkerfinu og uppfærða löggjöf, þar á meðal vegna stafræns ofbeldis. Þessar aðgerðir eru órjúfanlegur hluti af því að tryggja efnahagslegt og félagslegt jafnrétti.

Valkyrjur til verka

Kynjajafnrétti verður ekki náð nema með skýrum pólitískum vilja og aðgerðum. Valkyrjurnar í ríkisstjórn Íslands vita hver verkefnin eru. Það þarf að endurmeta virði kvennastarfa, brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og fara í margþættar aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Megi nýtt ár færa þeim hugrekki og dug til að láta til sín taka svo að þær geti, kinnroðalaust, horfst í augu við kynsystur sínar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB.

Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur ASÍ.




Skoðun

Sjá meira


×