Innlent

Tíu létust í um­ferðinni á árinu og al­var­legustu slysunum fækkar ekki

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórhildur Elín hvetur landsmenn í umferðinni til að passa sig á að aka ekki of hratt og til að festa á sig bílbeltin, þau bjargi mannslífum, dæmin sanni það.
Þórhildur Elín hvetur landsmenn í umferðinni til að passa sig á að aka ekki of hratt og til að festa á sig bílbeltin, þau bjargi mannslífum, dæmin sanni það. Vísir/Arnar

Tíu létust í banaslysum í umferðinni á árinu sem er að renna sitt skeið. Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir fleiri en áður kjósa að nota ekki bílbelti; hegðun sem kosti mannslíf.

Árið 2025 gekk ekki áfallalaust fyrir sig í umferðinni. Fjölskyldur þeirra tíu manneskja sem létu lífið í banaslysunum í umferðinni á árinu eru í sárum.

„Á þessu ári hafa tíu manneskjur látið lífið í umferðinni samanborið við þrettán manneskjur í fyrra, en atvikin voru hins vegar tíu í ár og tíu í fyrra, en það vildi bara svo til að það var ein manneskja í hverju banaslysi sem lést í ár en í fyrra voru það í einhverjum tilfellum fleiri en ein. Í rauninni þá hefur atvikunum – alvarlegustu slysunum – hefur ekki fækkað þó að fjöldi látinna sé minni en hann var í fyrra,“ segir Þórhildur.

Í fyrra létust þrettán í umferðarslysum, en þeir voru átta árið 2023, níu árið 2022, átta árið 2021 og sjö árið 2020. Hvað segja tölurnar okkur? Hvernig var árið 2025 í umferðinni?

„Hingað til þá hefur það verið ágætt. Það hefur verið betra en í fyrra og í þeim flokkum sem við horfum til þá eru allir flokkar betri en þeir voru í fyrra og árið þar á undan. Í rauninni getum við ekki verið mjög ósátt.“

Að því sögðu sé hvert og eitt banaslys alltaf einu of mikið.

„Það er skaði sem verður ekki aftur tekinn.“

Þórhildur segir mikilvægt að fólk reyni að bæta hegðun sína í umferðinni.

„Það er ögn meiri tilhneiging hjá fleira fólki að nota ekki bílbelti, sem er stórskrítið því það er mjög aðgengilegt, það er í öllum ökutækjum og það er sú skaðaminnkandi aðgerð sem við getum gert með nánast engum tilkostnaði og það tekur engan tíma heldur. Fleiri hafa fundið hjá sér þörf til að vera án bílbeltis. Það hefur kostað mannslíf.“


Tengdar fréttir

Banaslys á Fjarðarheiði

Farþegi í annarri tveggja bifreiða sem rákust saman á Fjarðarheiði í dag er látinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×