Lífið

Dóttir Tommy Lee Jones fannst látin

Atli Ísleifsson skrifar
Tommy Lee Jones og Victoria Jones á rauða dreglinum árið 2017.
Tommy Lee Jones og Victoria Jones á rauða dreglinum árið 2017. EPA

Victoria Jones, fyrrverandi barnastjarna og dóttir bandaríska leikarans Tommy Lee Jones, fannst látin á hóteli í San Francisco aðfaranótt gærdagsins. Hún varð 34 ára.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá þessu, en lögreglu barst tilkynning um málið klukkan þrjú um nótt að staðartíma.

People greinir frá því að starfsfólk hótelsins Fairmont Hotel hafi fyrst gert endurlífgunartilraunir og kallað til sjúkralið, en ekki hafi tekist að bjarga lífi Jones og var hún úrskurðuð látin á vettvangi. Ekki hefur verið gefið upp hvað dró Jones til dauða.

Victoria Jones var dóttir stórleikarans Tommy Lee Jones og fyrstu eiginkonu hans, Kimberlea Cloughley. Þau voru gift á árunum 1981 til 1996 og eiga einnig son saman sem er 42 ára.

Victoria Jones fylgdi á sínum tíma í fótspor föður síns og hóf leiklistarferil ung að árum. Hún fór með hlutverk í myndinni Men in Black II árið 2002 þegar hún var tíu ára gömul. Síðar átti hún eftir að fara með hlutverk í sjónvarpsþáttunum One Tree Hill og myndinni The Three Burials of Melquiades Estrada frá 2005 sem faðir hennar leikstýrði.

Tommy Lee Jones er sjálfur þekktur fyrir hlutverk sín í myndum á borð við Men In Black, Natural Born Killers og Batman Forever. Hann vann til Óskarsverðlauna árið 1994 fyrir hlutverk sitt í The Fugitive.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.