Handbolti

Opin æfing hjá strákunum okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðið vann alla sex leiki sína í undankeppni EM og hefur átt fast sæti á mótinu frá aldamótum.
Íslenska landsliðið vann alla sex leiki sína í undankeppni EM og hefur átt fast sæti á mótinu frá aldamótum. vísir/Anton

Það styttist í næsta stórmót hjá íslenska karlalandsliðinu í handbolta enda hefja strákarnir okkar leik á Evrópumótinu um miðjan mánuðinn.

Íslensku strákarnir, sem flestir spila sem atvinnumenn úti í Evrópu, eru komnir heim til Íslands og liðið hóf æfingar í dag, á öðrum degi nýs árs.

Handknattleikssamband Íslands ætlar að gefa fjölmörgum ungum aðdáendum íslenska landsliðsins að fylgjast með æfingu liðsins.

Á morgun, laugardaginn 3. janúar, býður HSÍ og strákarnir okkar alla krakka velkomna á opna æfingu hjá íslenska landsliðinu í handbolta.

Æfingin fer fram á heimavelli Víkings í Safamýrinni en húsið opnar klukkan 10.00 og æfingin hefst svo klukkan 10.30.

Það verður hægt að fá áritanir frá landsliðsstrákunum eftir æfingu og þá mun EmmEss Ís bjóða upp á góðgæti meðan birgðir endast.

Íslenska liðið spilar alla leiki sína í riðlinum á EM í Kristianstad í Svíþjóð og fyrsti leikurinn er á móti Ítalíu 16. janúar. Hinir leikirnir eru á móti Póllandi (18. janúar) og Ungverjalandi (20. janúar).

Strákarnir okkar eru að keppa á fjórtánda Evrópumótinu í röð en íslenska landsliðið hefur verið með á öllum EM frá því að liðið var með í fyrsta sinn á EM í Króatíu árið 2000.

Íslenska liðið endaði í tíunda sæti á síðasta Evrópumóti, sem fór fram í Þýskalandi árið 2024, en tveimur árum áður náði liðið fimmta sæti. Besti árangurinn eru bronsverðlaun sem liðið vann á EM í Austurríki 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×