Erlent

Pylsu­hundur tók að sér fimm gríslinga

Bjarki Sigurðsson skrifar
Nala að siða grísina til.
Nala að siða grísina til. Enex

Í bænum Wannfried í miðju Þýskalandi hefur hundurinn Nala gengið fimm grísum í móðurstað. Grísirnir fundust móðurlausir í skógi nálægt bænum.

Eigendur Nölu eru dýralæknar og því var farið með grísina til þeirra.

Nala er af tegundinni Dachshund, sem eru oft kallaðir pylsuhundar vegna stuttra fótleggja og langs búks. Hún tók á móti gríslingunum með mikilli ást og sinnir hlutverki fósturmóður með stakri prýði.

„Fyrst um sinn þurftum við að vakna á þriggja tíma fresti á næturnar til að gefa þeim mjólk að drekka. Nú eru þeir orðnir stærri og sterkari svo við erum hætt því. En það fyrsta sem maður þarf að gera þegar vekjaraklukkan hringir er að undirbúa mjólkina. Og grísirnir vita hvað er í gangi. Þeir hrýna glorsoltnir,“ segir Ernst-Wilhelm Kalden, eigandi Nölu. 

Fjölskyldan er með fjölmörg önnur dýr í fóstri, þar á meðal dádýr, villigelti, storka, svani og gæsir. 

„Öll þau dýr sem er komið með hingað til okkar gera þetta að heimilinu okkar, og sum þeirra vilja ekki fara. Við förum þó með þau dýr sem eru orðin hraust aftur til síns heima,“ segir Kalden. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×