Bíó og sjónvarp

Blaðri því út um allan bæ að hann sé næsti Bond

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Callum Turner og Dua Lipa eru sannkallað ofurpar og myndu líklega sóma sér vel í nýrri Bond mynd.
Callum Turner og Dua Lipa eru sannkallað ofurpar og myndu líklega sóma sér vel í nýrri Bond mynd. NDZ/Star Max/GC Images

Breski hjartaknúsarinn og leikarinn Callum Turner er sagður hafa blaðrað því út úr sér á fjölmörgum stöðum að hann hafi verið ráðinn til þess að leika breska njósnara hans hátignar, James Bond. Hann muni taka við keflinu af Daniel Craig sem lék njósnarann í síðustu mynd sem kom út 2021.

Það er breska götublaðið Daily Mail sem greinir frá því að 35 ára gamli leikarinn hafi „blaðrað um það út um allan bæ“ að hann hafi verið ráðinn sem næsti 007. Þá segir miðillinn að allir sem þekki til Turner viti af því og um sé að ræða verst geymda leyndarmálið í breskum bíóbransa um þessar mundir.

Þá fullyrðir miðillinn að unnusta hjartaknúsarans, hin hæfileikaríka söngkona Dua Lipa muni sjá um að gera næsta Bond-lag. Hún muni þar með feta í fótspor tónlistarmanna á borð við Adele og Billie Eilish. Er fullyrt í miðlinum að forsvarsmönnum Amazon sem eiga MGM-stúdíóið þyki tilhugsunin um tvíeykið saman í einni og sömu myndinni einfaldlega of góð til þess að láta hana ekki verða að veruleika. Þau hafa verið að hittast síðan í janúar 2024. 

Turner sprakk út á sjónarsviðið þegar hann lék stórt hlutverk sem Theseus Scamander í Harry Potter myndinni Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald og síðar í framhaldinu The Secrets of Dumbledore. Hann hefur síðar leikið í myndinni The Boys in the Boat sem leikstýrt var af George Clooney og kom út árið 2023 og einnig í sjónvarpsþáttunum Masters of the Air úr smiðju Apple TV sem fjölluðu um flugmenn í seinni heimsstyrjöldinni og voru í anda Band of Brothers.

Næsta mynd um njósnarann heimsfræga verður 26. myndin um kappann. Barbara Broccoli og Michael G. Wilson sem áttu kvikmyndaréttinn í gegnum Eon Productions framleiðslufyrirtækið seldu réttinn að Bond til Amazon fyrir einn milljarð bandaríkjadollara í febrúar á síðasta ári. 

Síðan þá hafa aðdáendur beðið með öndina í hálsinum eftir því hvað verður um Bond í höndum nýrra framleiðenda en ítrekað hafa borist fréttir af því að Jeff Bezos forstjóri Amazon sé mikill aðdáandi njósnarans og fylgist persónulega með ferlinu að baki þróun næstu myndar.

Turner bætist á lista yfir aðra leikara sem hafa verið orðaðir við hlutverkið. Þar má nefna Aaron Taylor Johnson, Paul Mescal, Harris Dickinson og Jacob Elordi.


Tengdar fréttir

Villeneuve leikstýrir næstu mynd um James Bond

Kanadíski leikstjórinn Denis Villeneuve mun leikstýra næstu mynd um breska spæjarann James Bond fyrir Amazon MGM Studios sem keyptu réttinn að seríunni í febrúar.

Vafðist tunga um tönn þegar Bond bar á góma

Næsta mynd um James Bond er byrjuð í framleiðslu og Jeff Bezos, forstjóri Amazon sem er rétthafinn að spæjaranum, er sagður vilja leikkonuna Sydney Sweeney sem næstu Bond-stúlku. Sweeney vafðist tunga um tönn þegar hún var spurð út í orðróminn og sagðist mundu skemmta sér betur sem Bond sjálfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.