Fótbolti

Ólafur og Lúð­vík stýra U21-strákunum

Sindri Sverrisson skrifar
Ólafur Kristjánsson tók til starfa hjá KSÍ í haust eftir að hafa síðast stýrt kvennaliði Þróttar.
Ólafur Kristjánsson tók til starfa hjá KSÍ í haust eftir að hafa síðast stýrt kvennaliði Þróttar. vísir/Diego

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú fundið arftaka Ólafs Inga Skúlasonar sem hætti með U21-landslið karla til þess að taka við Breiðabliki síðastliðið haust.

Það verða þeir Lúðvík Gunnarsson og Ólafur Helgi Kristjánsson sem taka við liðinu og stýra því út yfirstandandi undankeppni EM sem lýkur í október.

Ólafur Helgi var ráðinn inn til KSÍ í haust sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs kvenna auk þess sem hann leiðir þróun og stefnumótun yngri landsliða kvenna og sinnir verkefnum tengdum fræðslumálum hjá KSÍ. Lúðvík var aðstoðarþjálfari U21-liðsins.

Ólafur Helgi aðstoðaði Lúðvík þegar hann stýrði U21-liðinu í 3-1 sigri gegn Lúxemborg í nóvember, skömmu eftir að Ólafur Ingi hætti, en í tilkynningu KSÍ segir að þeir verði nú saman sem tveir aðalþjálfarar liðsins.

Lúðvík Gunnarsson er áfram þjálfari U17-landsliðs karla.Getty/Seb Daly

Lúðvík er einnig þjálfari U17 landsliðs karla og hefur KSÍ ákveðið að þar sem verkefni U21 liðsins skarast á við verkefni U17 landsliðs karla í mars þá muni Ómar Ingi Guðmundsson, sem er þjálfari U15 karla og aðstoðarþjálfari U19 karla auk þess að vera yfirmaður hæfileikamótunar, stýra U17 liðinu í fjarveru Lúðvíks í því verkefni.

Næstu leikir U21-landsliðsins eru við Eistland á heimavelli 26. mars og við Frakkland á útivelli 30. mars. Liðið lýkur svo undankeppninni með þremur leikjum næsta haust.

Frakkland er efst í riðli Íslands með 10 stig eftir 4 leiki. Næst koma Færeyjar með 9 stig eftir 6 leiki en bæði Sviss og Ísland hafa 8 stig eftir 5 leiki. Lúxemborg er svo með 4 stig og Eistland neðst með 2 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×