Handbolti

„Fáum fullt af svörum um helgina“

Sindri Sverrisson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og hans menn hafa undirbúið sig í Virkinu á íþróttasvæði Víkinga við Safamýri í vikunni. Í dag fljúga þeir til Frakklands.
Snorri Steinn Guðjónsson og hans menn hafa undirbúið sig í Virkinu á íþróttasvæði Víkinga við Safamýri í vikunni. Í dag fljúga þeir til Frakklands. Sýn Sport

„Mér finnst við vera á fínu róli,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, nú þegar styttist í að strákarnir okkar stígi á stokk á EM í Svíþjóð.

Viðtal við Snorra fyrir æfingu landsliðsins í vikunni, í Virkinu eins og íþróttasvæðið við Safamýri heitir nú, má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Snorri fór yfir stöðuna fyrir komandi leiki

Fyrsti leikur Íslands á EM er á föstudaginn eftir viku, við Ítalíu klukkan 17 að íslenskum tíma. Liðið ferðast hins vegar til Frakklands í dag og spilar þar á sterku æfingamóti, fyrst við Slóveníu á morgun klukkan 17:30 og svo við annað hvort Austurríki eða Frakkland á sunnudaginn.

Snorri segist hafa nýtt tímann hér á landi undanfarna daga til að fara yfir ýmislegt, bæði í sókn og vörn, og glotti aðspurður hvort strákarnir tæku ekki vel í það sem frá honum kæmi:

„Við erum að undirbúa okkur fyrir stórmót og ég held að þeir vilji nú allir bara vera hérna og dreymi stóra hluti. Þó það nú væri að þeir tækju á því á æfingum,“ sagði Snorri.

Átti ekki von á því að meiðsli Donna væru svona

Ákveðið skarð var höggvið í íslenska hópinn þegar Kristján Örn Kristjánsson, eða Donni, varð að hætta við EM vegna kviðslits og þá hefur Bjarki Már Elísson glímt við smámeiðsli.

„Ég átti ekki von á því að meiðslin hjá Donna væru svona. Við reiknuðum ekki með því. En svona hnjask eins og Bjarki glímir við fylgir þessu. Eflaust verður eitthvað meira um það. En meiðslin hjá Donna voru erfiðari en við héldum og því miður þurfti hann að draga sig út úr þessu,“ sagði Snorri.

Vill líka sjá hvað er ekki eins gott

Eins og fyrr segir er framundan ákveðin generalprufa fyrir EM – leikir sem eflaust munu einnig hafa sín áhrif á væntingar þjóðarinnar – en hvað vill Snorri fá út úr þeim?

„Æfingaleikirnir snúast um að drilla sína hluti og þú vilt náttúrulega sjá þá virka. Þú vilt fá jákvæð svör og líða vel með það sem þú ert að gera. Við fáum fullt af svörum um helgina en þú þarft líka að prófa þig áfram, testa hluti og sjá hvað er ekki eins gott. Vera þá búinn að upplifa það áður en að mótinu kemur. Við nálgumst leikina aðeins öðruvísi en akkúrat á EM en það segir sig sjálft að við viljum vinna og sigurinn nærir meira en hitt.“


Tengdar fréttir

Ótrúleg óheppni Slóvena

Undirbúningur Slóveníu fyrir EM í handbolta hefur verið hreinasta martröð og ólíklegt er að annað lið hafi gengið í gegnum annað eins í undirbúningi fyrir stórmót.

Hefur átt mikilvæg samtöl við Snorra Stein

Innan við tvær vikur eru til stefnu þar til Ís­land hefur leik á Evrópumóti karla í hand­bolta. Skyttan Teitur Örn Einars­son er klár í slaginn en í lands­liðs­hópnum er ætlast til þess að hann leysi stöðu horna­manns og er hann hvergi banginn þegar kemur að því.

Óðinn bætti við titli um jólin og mætir glaður á EM

„Mér líður bara vel, ég er heill og ferskur í skrokknum. Það er bara tilhlökkun núna,“ segir Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður íslenska handboltalandsliðsins, klár í slaginn fyrir EM sem hefst í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×