Skoðun

Upp­gjöf í barnamálum

Bozena Raczkowska skrifar

Það er ljóst að breytingar í leikskólakerfinu eru óumflýjanlegar. En áður en rætt er um gjaldskrár, opnunartíma eða skipulagsbreytingar þurfum við að staldra við og spyrja okkur: Hvert erum við eiginlega að stefna sem samfélag?

Ef nútímasamfélag á að þýða að við gleymum grunnþörfum barna, þá er það samfélag á rangri leið.

Í umræðunni um leikskólamál er sífellt vísað í hugmyndir um „nútímasamfélag“ og „jafnrétti“. En ef þetta á að vera nútíminn – samfélag þar sem grunnþarfir barna eru settar til hliðar – þá erum við ekki að þróast áfram, heldur aftur á bak. Það er óásættanlegt að slagorð séu látin ganga framar velferð þeirra sem minnst geta varið sig.

Þarfir barna eru ekki samningsatriði. Þau þurfa öryggi, ró og fullorðna sem hafa tíma til að sinna þeim. Í dag er það einfaldlega ekki hægt. Deildir eru undirmannaðar, álagið er mikið -Þetta er ekki faglegt umhverfi – þetta er neyðarástand.

Samt er talað um jafnrétti eins og það réttlæti allt. En hvar er jafnréttið fyrir börnin? Fyrir starfsfólkið sem brennur út? Það er hræsni að tala um jafnrétti á meðan kerfið sjálft stendur og fellur á því að börn séu látin aðlagast aðstæðum sem eru þeim ekki til heilla.

Ef við viljum raunverulegar lausnir, þá verðum við að byrja á því sem skiptir mestu máli: að lengja fæðingarorlof. Það myndi bæði minnka álag á leikskólakerfið og tryggja að börn fái þann tíma með foreldrum sínum sem þau raunverulega þurfa á fyrstu og viðkvæmustu árum lífsins.

Að minnka daglega vistun barna í leikskóla niður væri líka skref í rétta átt. Það myndi bæta líðan barna, létta á starfsfólki og færa kerfið nær því sem raunhæft og heilbrigt er.

Það er ekki hægt að tala um nútímasamfélag eða jafnrétti á meðan við gleymum þeim sem þurfa mest á okkur að halda. Ef við ætlum að byggja upp heilbrigt leikskólakerfi, þá verðum við að hætta að fegra stöðuna og byrja að laga hana.

Höfundur er deildarstjóri í leikskóla.




Skoðun

Sjá meira


×