Skoðun

Reykja­vík má ekki bregðast eldri borgurum

Gunnar Einarsson skrifar

Allt of margir eldri borgarar í Reykjavík lifa í dag í óöryggi sem enginn ætti að þurfa að sætta sig við eftir ævilangt starf. Þetta eru kynslóðir sem byggðu upp borgina okkar, héldu samfélaginu gangandi og lögðu sitt af mörkum til velferðarkerfisins sem við treystum á í dag.

Á síðustu árum hefur framfærslukostnaður aukist verulega. Leiguverð, fasteignagjöld, rafmagn, matvara og heilbrigðisþjónusta hafa hækkað hraðar í verði en tekjur margra eldri borgara. Fyrir þá sem lifa á lágum eftirlaunum er staðan orðin þannig að hver mánuður er barátta.

Það á ekki að vera hlutskipti eldri borgara að þurfa að velja á milli þess að kaupa nauðsynleg lyf, hita upp heimilið eða taka þátt í einföldu félagslífi. Slík staða er ekki boðleg í borg sem vill kenna sig við velferð, jöfnuð og mannúð.

Þegar rætt er um stöðu eldriborgara er oft vísað til þess að kerfin séu til staðar og úrræðin fyrir hendi. Í reynd upplifa margir allt annað. Þjónusta sem á að vera stuðningur verður oft flókin og það getur verið erfitt að átta sig á hvert á að leita. Þrátt fyrir að margs konar þjónusta hafi færst yfir á stafrænar lausnir eru þær enn ekki alltaf notendavænar.

Eldri borgarar standa oft frammi fyrir mismunandi innskráningum, ólíkum kerfum og óskýrum leiðbeiningum. Þótt markmiðið hafi verið að einfalda þjónustuna hefur framkvæmdin í mörgum tilfellum gert hana erfiðari fyrir þá sem minnst mega sín.

Þegar starfrænar lausnir, meðal annars í gegnum Ísland.is, taka ekki nægilega mið af þörfum eldri borgara verða þær ekki tæki til jöfnuðar heldur ný hindrun. Það hafa ekki allir sömu stafrænu færnina, sama aðgang eða sama öryggi í notkun tækninnar. Það er ekki gagnrýni á stafræna þróun sem slíka, heldur skort á mannlegri nálgun í innleiðingu hennar. Enginn ætti að detta milli kerfa vegna aldurs eða tæknilegra hindrana.

Félagsleg einangrun er annað alvarlegt vandamál sem fær of litla athygli. Þegar fólk hættir störfum minkar oft daglegt félagslegt tengslanet.

Ef fjárhagur leyfir ekki þátttöku í félagsstarfi eða samgöngur eru erfiðar eykst hætta á einmanaleika. Rannsóknir sýna að einmanaleiki hefur alvarleg áhrif á bæði andleg og líkamlega heilsu. Þrátt fyrir það eru félagsleg úrræði fyrir eldriborgara oft vanfjármögnuð eða ekki nægilega aðgengileg. Borg sem vill standa vörð um velferð þarf að líta á félagslega þátttöku sem grunnþjónustu en ekki munað.

Það skortir ekki þekkingu á vandanum. Það liggja fyrir skýr gögn um stöðu eldri borgara ásamt ábendingum frá hagsmunasamtökum og aðstandendum.Vandinn er skortur á pólitískum vilja og forgangsröðun. Bætt staða eldri borgara er ekki kostnaður sem ber að forðast heldur fjárfesting í heilbrigðara, réttlátara og mannúðlegra samfélagi. Samfélag sem kemur vel fram við eldra fólk er samfélag sem sýnir að mannlíf og reisn skipta máli á öllum æviskeiðum.

Reykjavík getur gert betur. Hún getur tryggt að þjónusta við eldri borgara sé einfaldari. Hún getur stutt betur við tekjulága eldri borgara, til dæmis með því að draga úr jaðarskerðingum bóta og tryggt að enginn sitji eftir vegna flókins regluverks. Borgin getur eflt félagsstarf, hverfamiðstöðvar og tryggt að samgöngur og aðgengi henti fólki á efri árum. Mikilvægast er þó að breyta viðhorfinu.

Eldri borgarar eru ekki byrði á samfélaginu heldur verðmætur hópur með reynslu, þekkingu og mannauð sem skiptir máli. Virðing fyrir eldri borgurum á ekki einungis að koma fram í fallegum orðum heldur í raunverulegum aðgerðum og forgangsröðun.

Hvernig við komum fram við eldri borgara segir mikið um samfélagið sem við viljum tilheyra. Borg sem kennir sig við mannúð, félagslegt réttlæti og virðingu og hlýtur að setja hag eldri borgara í forgang. Reykjavík má ekki bregðast eldri borgurum.

Höfundur er félagi í Flokki fólksins




Skoðun

Sjá meira


×