Skoðun

Far­sæld barna kemur ekki af sjálfu sér

Birgir Örn Guðjónsson skrifar

Málefni ungmenna í vanda hafa verið mikið í umræðunni síðustu mánuði og kominn tími til. Síðustu áratugi hef ég lagt mikið á mig í þessum málaflokki og samhliða reynt hvað ég get að halda umræðunni á lofti. Það hefur ýmislegt verið gert en umræðan virðist alltaf koma í bylgjum. Svo er fólk alltaf rosa hissa á því að við séum ekki á betri stað. Það er kominn tími til að málefni barna og ungmenna verði ekki bara tekin upp á tyllidögum til þess að geta hneykslast í sameiningu yfir því sem ekki er gert. Það er kominn tími á raunverulegt viðbragð og stöðugleika í fyrirbyggjandi aðgerðum.

Þessi mál skipta samfélagið allt máli og við berum öll ábyrgð. Það eru samt ákveðnir aðilar eða stofnanir sem hafa meiri ábyrgð og eru í stöðu til þess að taka á málunum. Sveitafélögin bera mjög mikla ábyrgð. Undir stjórn þeirra eru meðal annars leikskólarnir, grunnskólarnir, félagsmiðstöðvarnar, félagsþjónustan, NPA þjónusta og barnavernd. Þetta er gífurleg ábyrgð en um leið felast í þeim ótrúleg tækifæri til þess að hafa raunveruleg og mótandi áhrif.

Árið 2021 voru innleidd svokölluð farsældarlög barna. Það var mjög jákvætt skref því við getum algjörlega unnið út frá þeim til þess að gera stöðuna betri. En það gerist ekkert að sjálfu sér og það þarf sameiginlegt átak í að gera betur.

Það er ákveðinn þráður í farsældarlögunum um að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Á mismunandi stöðum er ólík yfirsýn eða sérþekkingu og samvinna og samtal er lykillinn að árangri. Ef samvinnan á sér ekki stað týnast einstaklingarnir eða þá að þeir falla milli kerfa. Það er hægt að stoppa í þessi göt og nauðsynlegt að gera það.

Þar sem það er skólaskylda í landinu þá er mjög stórt sóknarfæri inni í skólunum. Þar eru mestu líkurnar á að ná tengingunni. Það er hins vegar deginum ljósara að það er ekki hægt að leggja alla þá vinnu á kennarana sem þarf til. Það er ekki hægt að hlaða endalaust fleiri verkefnum og aukinni ábyrgð á sömu stéttina. Þess vegna verðum við að fá inn sérfræðinga á fleiri sviðum en kennslu inn í grunnskólana. Líka til þess að kennarar geti sinnt sinni vinnu á fullnægjandi hátt.

Svokallaður tengiliður farsældar er gífurlega mikilvægt starf í grunnskólunum. Það starf á ekki að vera eitthvað sem stjórnendur skólanna taka að sér meðfram öðrum störfum. Í einhverjum tilfellum geta kannski námsráðgjafar tekið það að sér en þeir hafa líka nóg annað á sinni könnu. Í sífellt flóknara samfélagi mun starf tengiliðs farsældar aðeins verða mikilvægara. Tengiliðir þurfa ekki að bíða eftir að foreldrar séu komnir í öngstræti. Foreldrar eru líka í misjafnri stöðu til þess að leita aðstoðar. Tengiliðir geta stigið inn þegar þeir sjálfir, kennarar eða aðrir sjá að aðstoðar sé þörf. Í stærri sveitafélögum, eins og Kópavogi, eru stórir og fjölbreyttir skólar. Kennarar eða skólastjórnendur eiga fullt í fangi með að sinna sínu starfi. Við getum ekki ætlast til að þeir séu líka sálfræðingar, félagsfræðingar, þroskaþjálfar eða atferlisfræðingar.

Það er löngu komið nóg af því að eyrinn sé sparaður en krónunni kastað í málefnum barna og ungmenna. Kostnaðurinn við að sinna þessu ekki eins vel og við getum er alltaf miklu meiri til lengri tíma litið. Það er svo líka kostnaður að kennarar fari í veikindaleyfi eða brenni út í starfi. Við getum og verðum að gera betur.

Þegar kemur að svona mikilvægum málaflokki er ekki boðlegt að bíða eftir að einhver annar taki við vandamálinu og við megum ekki festast í einhverri störukeppni við ríkið varðandi verkaskiptingu eða kostnað. Sveitafélögin bera mikla ábyrgð og eru í kjör stöðu til að axla þá ábyrgð. Við viljum öfluga skóla með góðri kennslu og réttri aðstoð fyrir þau sem þurfa. Þegar vísað er í aðstoð utan veggja skólans er nauðsynlegt að leiðin sé skýr og greið, óháð efnahag fjölskyldna. Við verðum að horfa út fyrir boxið og þora. Breytum þessu.

Höfundur er deildarstjóri hjá Barna- og fjölskyldustofu og sækist eftir oddvitasæti á lista Viðreisnar í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum.




Skoðun

Sjá meira


×