Innlent

Bál­hvasst á Aust­fjörðum og óvissustig vegna snjó­flóða­hættu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Fagradal.
Frá Fagradal.

Bálhvasst er á Austfjörðum og hefur talsverður snjór safnast undir Grænafelli á Fagradal. Hefur óvissustigi því verið lýst yfir á Fagradal vegna snjóflóðahættu við Grænafell.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Þar segir að vegurinn sé enn opinn en vegfarendur eru beðnir um að hafa varann á. Segir lögregla að komið geti til lokunar án fyrirvara og eru vegfarendur hvattir til að skoða vef Vegagerðarinnar.

Þar má meðal annars sjá að miðað við veður og akstursskilyrði er vegur frá Kálfafelli að Höfn lokaður. Samkvæmt Vegagerðinni verður vegurinn lokaður áfram til morguns. Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Austfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi eystra, miðhálendinu og á Suðurlandi.

Þá bendir lögreglan á Austurlandi á að í dag verði áfram hvöss norðlæg átt og spár geri ráð fyrir viðloðandi úrkomu við Grænafellið fram eftir degi. Draga eigi úr úrkomu seinnipartinn og þá á að snúast í norðvestlægari átt. Verður snjósöfnun þá líklega minni og mun draga úr hættu að sögn lögreglu.

Átt þú myndefni af veðrinu? Þú mátt senda okkur myndir eða myndbönd á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×