Skoðun

Mönnun ís­lensks heil­brigðis­kerfis til fram­tíðar í upp­námi

Unnur Anna Valdimarsdóttir, Arna Hauksdóttir, Berglind Eva Benediktsdóttir, Bjarni Elvar Pétursson, Heiða María Sigurðardóttir, Helga Bragadóttir, Ólafur Ögmundarson, Sólveg Ása Árnadóttir og Sædís Sævarsdóttir skrifa

Ísland telst til norrænna velferðarsamfélaga sem hafa sérstöðu á heimsvísu hvað varðar jafnt aðgengi þjóðar að menntun, félags- og heilbrigðisþjónustu. Flest erum við meðvituð um mikilvægi þessara samfélagslegu innviða enda sýna skoðanakannanir í aðdraganda Alþingiskosninga að heilbrigðismál eru iðulega meðal mikilvægustu málefna í huga almennings. Undirstaða slíks velferðarkerfis er vel menntað heilbrigðisstarfsfólk en undanfarin ár hefur skortur á heilbrigðisstarfsfólki í landinu aukist meðal annars vegna örrar fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa bent á að mannekla í heilbrigðiskerfinu muni aukast verulega á komandi árum og hafa því kallað eftir því að íslenskir háskólar fjölgi nemum í heilbrigðisgreinum.

Háskóli Íslands gegnir afar mikilvægu hlutverki í menntun faglærðra heilbrigðisstétta á Íslandi. Sem dæmi má þar nefna menntun geislafræðinga, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, lífeindafræðinga, lyfjafræðinga, lækna, matvæla- og næringarfræðinga, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga og tannlækna. Háskóli Íslands hefur undanfarin ár brugðist við ákalli stjórnvalda og fjölgað námsplássum um 14-38% í sjúkraþjálfun, hjúkrunarfræði og læknisfræði. Áform hafa verið um að fjölga enn frekar námsplássum í þessum greinum á næstu árum sem og í öðrum heilbrigðisgreinum þar sem fjöldatakmarkanir eru við lýði, til dæmis klínískri sálfræði, talmeinafræði og tannlæknisfræði.

Forsenda slíkrar fjölgunar er markviss fjárfesting stjórnvalda í háskólamenntun. Nám í heilbrigðisgreinum er kostnaðarsamt vegna klínískrar þjálfunar, umfangsmikilla sérhæfðra innviða og fjölda sérfræðinga sem þarf til kennslu þessara þverfræðilegu greina. Fjölgun nema kallar óhjákvæmilega á fjölgun háskólakennara og frekari fjárfestinga í innviðum og húsnæði.

Þrátt fyrir yfirlýsta stefnu stjórnvalda um fjölgun nema í heilbrigðisgreinum hafa framlög til háskólamála á Íslandi verið mun lægri en í nágrannalöndum okkar. Í fjárlögum 2026 bættist við 1% aðhaldskrafa á Háskóla Íslands sem, samhliða auknum útgjöldum vegna húsnæðis og launahækkana, setur fjárhag skólans og þar með starfsemi hans verulegar skorður. Þessi niðurskurður skaðar kjarnastarfsemi Háskóla Íslands og er grafalvarlegur fyrir Heilbrigðisvísindasvið sem þegar hefur verið vanfjármagnað svo árum skiptir og neyðist nú til að skera enn frekar niður, fresta nauðsynlegri nýliðun kennara og endurnýjun innviða.

Afleiðingin er sú að áform Háskóla Íslands um fjölgun nema í heilbrigðisgreinum eru í uppnámi – og þar með sjálfbærni íslensks heilbrigðiskerfis til framtíðar. Ráðherrar heilbrigðis- og háskólamála voru nýlega upplýstir um þessa alvarlegu stöðu og þau úrræði sem brýnt er að ráðast í til að forðast frekari skerðingar á starfseminni og tryggja að hægt verði að halda áfram nauðsynlegri fjölgun nema í heilbrigðisgreinum. Það var ekki annað að heyra en að stjórnvöld taki þessum áskorunum af fullri alvöru. Það er því bjargföst trú okkar að stjórnvöld muni tafarlaust bregðast við þessum aðkallandi vanda Háskóla Íslands og Heilbrigðisvísindasviðs til að tryggja farsæla framtíð íslensks heilbrigðiskerfis.

  • Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs
  • Arna Hauksdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum
  • Berglind Eva Benediktsdóttir, forseti Lyfjafræðideildar
  • Bjarni Elvar Pétursson, forseti Tannlæknadeildar
  • Heiða María Sigurðardóttir, forseti Sálfræðideildar
  • Helga Bragadóttir, forseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar
  • Ólafur Ögmundarson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar
  • Sólveg Ása Árnadóttir, formaður Námsbrautar í sjúkraþjálfun
  • Sædís Sævarsdóttir, forseti Læknadeildar



Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×