Skoðun

Þéttingar­stefna eða skyn­semi?

Ögmundur Ísak Ögmundsson skrifar

Húsnæðis-og skipulagsmálin í Reykjavík eru á villigötum. Í aðdraganda sveitastjórnarkosninganna framundan hefur mikið verið talað og ritað um breytingar og að bæta þurfi stöðuna í borginni og eru slíkar yfirlýsingar mis trúverðugar þar sem að þær koma gjarnan úr þeim ranni stjórnmálanna sem hefur haft allar forsendur til að breyta hlutunum síðastliðinn áratug. Sjálfur bý ég í Laugardalnum, er áhugasamur um málefnið og þykir einstaklega vænt um mitt hverfi. Ég hef verulegar áhyggjur ef að ekkert verður að gert í kjölfar næstu kosninga - með öðrum orðum: Það þarf að kjósa nýtt fólk til forystu í Reykjavík.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að sú þéttingarstefna sem rekin hefur verið í húsnæðis- og skipulagsmálum virðist ekki vera að ganga upp og augljóst af umræðunni að margir eru ósáttir við þá nálgun. Ég hef stundum spurt mig hvort markmið borgarinnar sé að flækja einfalda hluti í hinu daglega lífi íbúa Reykjavíkur í stað þess að reyna að leysa vandamál með skynsömum lausnum. Nærtækt dæmi um slíkt er við Suðurlandsbraut þar sem að verið er að reisa glænýjar lúxusíbúðir sem enginn hefur efni á og þar af leiðandi verða þrengingar við stórar umferðaræðar svo fólk situr enn fastara í umferðinni.

Maður hefði haldið að það hljóti að vera eitt af stóru markmiðunum að hjálpa ungu fólki að eignast húsnæði og komast inn á markaðinn, ekki að festa það í leigukerfinu eða skammtímalausnum nú eða þá missa það úr sveitarfélaginu. Það gerist ekki nema að byggðar séu hér íbúðir í passlegri stærð á viðráðanlegu verði og borgin verður að gera það að fýsilegum valkosti fyrir verktaka. Hér í Reykjavík eru opinber gjöld einstaklega há, þar má nefna svokallað gatnagerðargjald sem er eitt það hæsta á landinu og einnig byggingargjöld sem nema tugum þúsunda króna á fermetrann og fyrir 100 fermetra íbúð geta bara byggingarréttar- og gatnargerðargjöld numið 10 milljónum á íbúð. Þetta eru tvö dæmi um opinber gjöld sem auka verulega upphafskostnað nýbygginga, sem að sjálfsögðu skilar sér í verði á nýjum íbúðum. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur barist gegn öllum tillögum að hækkunum á slíkum gjöldum sem lagðar hafa verið fram síðustu misserin.

Laugardalurinn er eitt af þeim hverfum þar sem vel hefur tekist til í húsnæðis- og skipulagsmálum. Þar er almennt mjög gott jafnvægi á milli grænna svæða og bygginga, en húsnæðisframboð er fjölbreytt og fólk getur fundið sér húsakost við sitt hæfi, hvort sem það er að byrja á að fjárfesta í fallegri blokkaríbúð sem fyrstu eign eða að færa sig í raðhús eða þríbýli þegar er kominn tími til að minnka við sig og allt þar á milli. Ég elska Laugardalinn en síðustu árin hafa þar reglula dúkkað upp vondar hugmyndir í skipulagsmálum, því skiptir máli að vera á varðbergi og láta sig málin varða. Við viljum standa vörð um grænu svæðin okkar og tryggja að innviðir þoli íbúafjöldann og því ætti að leggja áherslu á að byggja upp fleiri hverfi í borginni þar sem hlutirnir ganga svona vel og íbúar ánægðir, frekar en að þétta byggðina út í hið óendanlega - sem mun því miður gerast ef fer sem horfir með núverandi skipulagsstefnu. Við verðum að láta í okkur heyra, áður en vélarnar eru ræstar og það er orðið of seint!

Höfundur er fjölskyldufaðir, íbúi í Reykjavík og formaður Sjálfstæðisfélagsins í Langholtshverfi.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×