Skoðun

Kyn­hlut­laust klerka­veldi

Haukur Þorgeirsson skrifar

Gísli Sigurðsson, kollegi minn á Árnastofnun, ritar pistil í Morgunblaðið 10. janúar þar sem hann fjallar um móðurmálið okkar og hið málfræðilega kynjakerfi þess. Hann grípur til samanburðar austan úr löndum og segir að „[þ]ó að klerkarnir í Íran vilji bara þurfa að tala um alla á fjöldafundum í Teheran þá eigi vel við að tala um öll á slíkum samkomum hér á landi“. Þessa ályktun grundvallar Gísli á hugmyndum um tengsl samfélagsgerðar og tungumáls.

Ég er ekki sammála því að það sé samband á milli venjulegra íslenskra orðmynda og stjórnarfars eða hugmyndafræði klerka í Íran. Hins vegar eru hér undir málfræðileg atriði sem forvitnilegt getur verið að ræða. 

Það er venjuleg íslenska að myndir eins og allir vísi til allra, óháð kyni, ef þær standa sjálfstæðar. Myndir af þessu tagi eru flokkaðar sem ‘karlkyn’ í málfræðibókum en við þurfum ekki að láta fræðiheiti stýra hugsun okkar eða tali. Orðið spékoppur er líka flokkað sem ‘karlkyn’ en spékoppur er samt enginn karl og hefur engin einkenni karlmanna. Á sama hátt er ‘karlkyn’ ekki lýsandi orð um myndir eins og allir þegar þær koma fyrir sjálfstæðar. Þegar fólk talar um alla meinar það líka alla og sleppir engum.

Það er samt gaman að leyfa huganum að flakka um kynjakerfi málsins. Þegar við tölum íslensku koma oft fyrir orðmyndir sem merkja sannarlega kyn fólks. Í raun gæti manni þótt það svolítið fyndið að við séum sí og æ að útvarpa kyni okkar í samhengi þar sem það skiptir yfirleitt engu máli. Ég segi kannski að ég sé stoltur af nemendum mínumeða ánægður með nýja ljóðabók og þá hef ég jafnframt tiltekið – yfirleitt alveg að óþörfu – að ég sé karlmaður. Á íslensku hafa bæði lýsingarorð og fornöfn málfræðilegt kyn og með þeim erum við ár og síð að taka fram okkar eigið kyn og annarra.

Úr þessum bollaleggingum getum við ferðast áfram og velt fyrir okkur hvort málfræðilegt kyn hafi áhrif á hugsunina. Erum við alltaf að vekja athygli á kyni þegar við tölum íslensku og þá kannski að leggja áherslu á að konur og karlar séu ekki eins? En hvað ef það væri talið hugmyndafræðilega æskilegt að gera sem minnst úr öllum muni á konum og körlum? Værum við þá ekki betur sett með tungumál sem hefði ekkert kyn? Í draumalandi hugmyndafræðinnar væri slíkt tungumál kannski lykillinn að hinu fullkomna samfélagi.

En þegar við snúum aftur til raunveruleikans þá eru til mörg tungumál í heiminum sem hafa málfræðilegt kyn og mörg sem hafa það ekki og það er ekki að sjá neitt samhengi á milli þessara málfræðilegu eiginleika og frelsis kvenna.

Íslenska er nærtækt tilvik um mál með ríkulegt málfræðilegt kynjakerfi. En það er vert að hugsa líka um tungumál af hinu taginu og þar er persneska tilvalið dæmi. Persneska er mál þar sem nafnorð og lýsingarorð hafa ekkert kyn. Það sem meira er, persnesk fornöfn hafa ekki heldur neitt kyn. Í persnesku eru sem sagt ekki til orð sem samsvara hann eða hún heldur gildir sama kynhlutlausa fornafnið bæði fyrir konur og karla. Þegar íranskir klerkar tala á fjöldafundum í Teheran þá eru ræðurnar þeirra fullkomlega og óaðfinnanlega kynhlutlausar.

Höfundur er rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×