Skoðun

Sam­vinna, en ekki ein­angrun

María Malmquist skrifar

Í dag blasir við okkur allt önnur heimsmynd en fyrir aðeins örfáum árum síðan. Við lifum á tímum skjótra breytinga og mikillar óvissu. Það er stríð í Evrópu og víða annars staðar um hnöttinn, spenna milli stórvelda og heimurinn virðist sífellt sundraðri. Öryggi sem áður var sjálfsagt er ekki endilega lengur tryggt.

Sem ung kona að horfa til framtíðarinnar sem bíður mín, lít ég til Evrópusambandsins og sé stöðugleika. Það er öflugt bandalag 27 ríkja sem við höfum mikla hugmyndalega samleið með. Þau standa fyrir friði, lýðræði, mannréttindum, samvinnu, frelsi, sjálfbærni og framförum – og í dag er Evrópusambandið raunverulega eina aflið sem hægt er að treysta að standi vörð um þessi gildi.

Ísland myndi hafa gríðarlegan ávinning af því að vera fullgildur aðili að þessu samstarfi ríkja sem byggir á fyrrnefndum gildum, en ekki valdboði og einangrun. Þegar heimurinn er að klofna í blokkir og stórveldi sýna vaxandi skeytingarleysi gagnvart alþjóðalögum, værum við bæði sterkari og öruggari sem hluti af þessari heild.

Oft heyrir maður sagt að það ætti að vera nóg að vera í NATO til að tryggja öryggi okkar og varnir. Aðild okkar Atlantshafsbandalaginu er vissulega gríðarlega mikilvæg þegar kemur að hernaðarlegu öryggi og vörnum gagnvart utanaðkomandi árásum, en Evrópusambandið nær hins vegar yfir mun víðara svið. Það myndi til dæmis tryggja okkur meira efnahagslegt, pólitískt og samfélagslegt öryggi. Raunin er líka sú að flest Evrópuríki eru aðilar að bæði NATO og Evrópusambandinu, því að það er ljóst að hernaðarlegt öryggi og pólitískur stöðugleiki haldast fast í hendur. Mín niðurstaða er því sú að ef Ísland væri með aðild að bæði NATO og ESB, væri okkur tryggð háværari rödd á heimsvísu, meiri áhrif og sterkara bakland.

Ég tel að leiðin til þess að tryggja okkur Íslendingum sem besta og öruggasta framtíð liggi í samvinnu, en ekki einangrun. Samvinna útilokar ekki sjálfstæði, hún eflir það.

Höfundur er laganemi og situr í stjórn Ungra Evrópusinna sem og Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×