Skoðun

Endur­vekjum Reykja­víkur­listann

Stefán Jón Hafstein skrifar

Þetta þarf að segja fyrir leiðtogakjör Samfylkingarinnar í borginni: Fyrir kosningarnar í vor á Samfylkingin að beita sér kröftuglega fyrir því að boðinn verði fram Reykjavíkurlisti allra þeirra flokka sem nú mynda meirihluta. Það er algjörlega glatað fyrir félagshyggjufólk að standa uppi eins og eftir síðustu Alþingiskosningar með hátt hlutfall dauðra atkvæða og nokkra flokka sem engin áhrif hafa þrátt fyrir að hafa samtals fengið nægilegan stuðning til að lýðræðislegt væri að þeir ættu kjörna fulltrúa.

Eftir sjálfsmark Einars Þorsteinssonar fyrir Framsókn, sem sagði af sér sem borgarstjóri, mynduðu fimm flokkar meirihluta fyrir ári síðan og hafa haldið sjó. Þar réði skynsemin hjá Samfylkingu, Flokki fólksins, Pírötum, Vinstri Grænum og Sönnu Magdalenu — sem nú er óbundin af villtasta liðinu í leifum af því sem kallast Sósíalistar.

Hægri blokkin

Staðan er frekar vænleg nú samkvæmt könnunum fyrir hægriblokkina. Sjálfstæðisflokkurinn er loksins kominn með þokkalega gott fylgi en eins og ótal dæmi sanna getur það reynst rokgjarnt þegar kjósendur fá viðmið á móti. Miðflokkur er óskrifað blað í borginni og Framsókn í vondum málum en alls ekki ótrúlegt að tveir-þrír þessara flokka gætu náð að mynda meirihluta með Viðreisn sem skilgreinir sig á uppboðsmarkaði. Fyrir félagshyggjufólk er það niðurdrepandi tilhugsun. Ekki vegna þess að til kæmi heimsendir heldur vegna þess að málflutningur þessa fólks er íhalds- og afturhaldssamur yfir í að vera smásálarlegur.

Vinstri blokkin

Horfumst í augu við staðreyndir: Valdþreyta er aldrei gott vegarnesti fyrir kosningar. Hún er til staðar núna og meirihlutinn sem er að störfum verður bara að viðurkenna það. Leiðin til úrbóta er hröð og sannfærandi endurnýjun. Þetta er skrifað undir samræðum tveggja frambjóðenda til forystu í Samfylkingunni í Silfrinu og pent orðað: Meira þarf til. Jafnvel þótt Sönnu takist að skapa Vor til vinstri með sjálfri sér, Pírötum og VG erum við að tala um leifar af ósigri í síðustu þingkosningum. Samfylkingin verður að bjóða í samfylkingu.

Samfylking og samfylking

Ég tala núna eins og afdankaður Spaugstofumaður sem er búinn að vera í samfylkingarbransanum eins og ,,leigubílstjóri í töttöguogfimmár” – reyndar 40 ár. Það er orðið langt síðan við sigruðum með Reykjavíkurlistanum fyrsta undir einu af mörgum kjörorðum: Kominn tími til að breyta. Seiglan í þessu samstarfi reyndist mikil og tók mörgum ummyndunum en borgin okkar hefur tekið ævintýralegum breytingum á þessum tíma og helsta íhaldsaflið gjörsamlega ráðvana áratugum saman. Eigum við ekki að læra af reynslunni? Tilgangur og höfuðmarkmið Samfylkingarinnar felst í nafninu. Að ná saman því fólki sem á miklu meira sameiginlegt en það fáránlega litla sem skilur að og bjóða borgarbúum hugsjónaríkt framboð knúið af eldmóði fólks sem vill vinna vel?

Höfundur er fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og Reykjavíkurlistans, var í skipulagsvinnu fyrsta Reykjavíkurlistans, undirbúningsnefnd fyrir stofnun Samfylkingarinnar og formaður framkvæmdastjórnar flokksins í nokkur ár.




Skoðun

Sjá meira


×