Skoðun

Sunda­braut á for­sendum Reyk­víkinga

Sundabraut er eitt allra stærsta samgönguverkefni sem Reykjavík hefur staðið frammi fyrir í áratugi. Hún vekur sterk viðbrögð, sumir sjá í henni lausn á umferðavanda en aðrir óttast áhrif hennar á borgina og lífsgæði íbúa. Ég hef sjálf haft áhyggjur af neikvæðum áhrifum hennar á Reykjavík. Þess vegna skiptir útfærslan öllu máli.

Forsenda vinnunnar er viljayfirlýsing ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2021. Þar er kveðið skýrt á um að verkefnið skuli byggja á vönduðu umhverfismati, samanburði valkosta, mati á þróun án Sundabrautar, samráði við íbúa og mótvægisaðgerðum til að mæta mögulegum neikvæðum áhrifum. Þetta eru ekki aukaatriði, heldur grunnforsendur.

Í viljayfirlýsingunni er lögð rík áhersla á að endanlegt leiðarval byggi á valkostagreiningu þar sem áhrif á íbúðahverfi eru metin samhliða mati á hvernig megi bregðast við breytingum á umferð og mögulegum neikvæðum áhrifum á hverfi á áhrifasvæði Sundabrautar. Þetta skiptir öllu máli.

Umræðan um Sundabraut er ekki komin á þann stað að íbúar eða yfirvöld geti tekið upplýsta afstöðu til valkosta. Enn vantar heildstæða umfjöllun um mismunandi valkosti út frá áhrifum þeirra í samhengi við raunhæfar mótvægisaðgerðir. Samráð við íbúa á að vera lykilþáttur í þessu verkefni og íbúar hafa eðlilegar áhyggjur sem þarf að taka alvarlega. Ennfremur vantar þessar nauðsynlegu upplýsingar til að hægt sé að mynda sér upplýsta afstöðu.

Ég skil vel áhyggjur íbúa, hvort sem er í Laugardal, Grafarvogi, Gufunesi eða annars staðar. Ég er sjálf íbúi í Grafarvogi og veit hversu mikil áhrif stórar samgönguframkvæmdir geta haft á daglegt líf fólks. Meginforsenda fyrir mig er sú að Sundabraut risti ekki hverfi í sundur. Slík útfærsla gengur gegn þeirri borgarstefnu sem Reykjavík hefur markað um heilnæmt, öruggt og mannvænt umhverfi.

Þess vegna hef ég í samtölum mínum við Vegagerðina ítrekað lagt áherslu á að horfa til lausna og mótvægisaðgerða. Mótvægisaðgerðir gætu meðal annars verið fleiri stokkar, göng, að endurhanna götur sem hlykkjóttar borgargötur sem yrðu óaðlaðandi fyrir gegnumakstur, endurskoða ljósastýringar og jafnvel fjölga botnlöngum til að koma í veg fyrir gegnumakstur alfarið.

Vel hannaðar mótvægisaðgerðir skipta íbúa í Reykjavík miklu máli og allt þetta kostar og sá kostnaður verður Sundabrautarverkefnið að bera. Mótvægisaðgerðir eru hluti af því verkefni sem Sundabrautin er og það þarf að taka tillit til þeirra þegar kemur að ákvarðanatöku, skipulagi og fjármögnun. Lífsgæði Reykvíkinga eru í húfi.

Það vill enginn búa við hraðbraut í gegnum sitt hverfi. Íbúar vilja göngu- og hjólavænt, öruggt og heilnæmt umhverfi. Það er stefna Reykjavíkur og hún verður að endurspeglast í útfærslu Sundabrautar.

Vegagerðin getur ekki ein valið leið út frá hagræði eða kostnaði einum saman. Verkefnið verður að byggja á sátt, samráði og þeim skuldbindingum sem þegar liggja fyrir. Ábyrgð borgarstjórnar er að tryggja að hagsmunir Reykvíkinga séu hafðir að leiðarljósi.

Sundabraut mun stytta ferðir, tengja Vesturland og Suðurland og auka fýsileika þess að búa utan höfuðborgarsvæðisins og vinna í Reykjavík. En fyrir okkur sem búum í borginni skiptir mestu máli hvernig brugðist er við mögulegum neikvæðum áhrifum. Sundabraut má ekki skemma Reykjavík. Hún verður að bæta líf Reykvíkinga.

Sundabraut þarf að vera á forsendum Reykvíkinga.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og býður sig fram í 3.-4. sæti í forvali Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar sem verður 24. janúar.




Skoðun

Sjá meira


×