Skoðun

Skattagrýla lifir

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Nú er liðið eitt ár síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum og skýrt er orðið hvert stefnir. Þrátt fyrir fögur orð um verðmætasköpun blasir við önnur mynd þegar horft er til raunveruleikans. Verðbólga mælist 4,6 prósent, atvinnuleysi rýkur upp og horfur í efnahagsmálum eru sagðar nöturlegar af Seðlabankanum.

Fyrir jól mátti hlýða á orðræðu stjórnarliða sem eignuðu sér m.a. vaxtalækkanir annarra til að fegra eigin vanmátt. Á sama tíma voru fjárlögin keyrð í gegn með 143 milljarða útgjaldavexti og skattahækkunum, þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir atvinnulífsins og minnihlutans. Tillögur Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir og hagræðingu upp á tugi milljarða fengu enga umræðu - þeim var einfaldlega sópað af borðinu.

Guði sé lof, var sagt úr ræðustól, að nú væri komin ríkisstjórn sem kynni að fara með peninga. En, þegar horft er til niðurstöðunnar blasir annað við: hærri skattar, minna svigrúm fyrirtækja og versnandi lífskjör almennings. Atvinnulífið grátbað um áheyrn og andrými til að skapa verðmæti en ekki var hlustað.

Spunameistarar ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Samfylkingar klikkuðu þó ekki á einu, að kalla allt úr ranni stjórnarandstöðunnar bull, rangfærslur eða hræðsluáróður. Það er þeirra sérgrein. Steininn tók þó úr þegar samið var heilt ævintýri um svokallaða Skattagrýlu, eins og skáldsögur leysi vandamál fólks í raunveruleikanum með vaxandi verðbólgu, hækkandi skatta og aukið atvinnuleysi.

Desember var í raun sögulegur því við komumst að því að Skattagrýla er ekki dáin. Hún gafst ekki upp á rólunum. Hún situr enn og hún tálgar sér væna flís af sameiginlegum sauð þjóðarinnar, nú úr Stjórnarráðinu.

Höfundur er aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og varaþingmaður.




Skoðun

Sjá meira


×