Skoðun

6 fríar klukku­stundir og tæmdir bið­listar á leik­skólum í Hvera­gerði

Sandra Sigurðardóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir og Njörður Sigurðsson skrifa

Í upphafi kjörtímabilsins lagði meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar upp þá stefnu að bjóða upp á 6 klukkustundir gjaldfrjálst á leikskólum bæjarins. Þessi sýn er nú að raungerast frá 1. febrúar nk. eftir markviss skref í þá átt á kjörtímabilinu og er það mikið gleðiefni.

Frá 1. febrúar nk. verða mánaðargjöld fyrir 8 klst. vistun einungis 8.800 kr. og með því hafa leikskólagjöld lækkað um 70% á kjörtímabilinu.

Samhliða þessu hefur öllum börnum í Hveragerði verið tryggt leikskólapláss frá 12 mánaða aldri með því að biðlistar hafa verið tæmdir með opnun nýrra deilda á leikskólanum Óskalandi árið 2025.

Okkar Hveragerði leggur mikla áherslu á málefni fjölskyldna og öflugir leikskólar sem geta þjónustað ört stækkandi íbúahóp á faglegan hátt er gott dæmi um það sem við viljum standa fyrir.

-Fríar stundir óháð vistunartíma barns

Rétt er að undirstrika að Hveragerðisleiðin í gjaldfrjálsum stundum á leikskóla gerir ekki ráð fyrir að aðrar og fleiri leikskólastundir, eða önnur þjónusta, hækki sem þessu nemur eins og virðist vera raunin í öðrum sveitarfélögum sem eru að fara svipaða leið. Kjósi foreldrar að nýta 6 eða færri stundir er það gjaldfrjálst og kjósi foreldrar að nýta fleiri en 6 stundir kostar sjöunda stundin 4.400 kr. og sú áttunda 4.400 kr. til viðbótar, eða samtals 8.800 kr. Aðgerðin hefur það einfaldlega í för með sér að leikskólagjöld lækka og hefur ekki önnur áhrif á starfsemi leikskólanna, vistunartíma í boði eða aðra gjaldaliði eins og fyrir hádegisverð og hressingu. Hveragerðisleiðin felur þannig í sér að öll börn fái 6 klukkustundir gjaldfrjálsar óháð því hve langur vistunartími barns er.

-Fjölgun gjaldfrjálsra stunda skrefaðar áfram á kjörtímabilinu

Með ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar á fundi sínum þann 8. janúar síðastliðinn var nánar tiltekið ákveðið að 5 stundir yrðu gjaldfrjálsar frá 1. janúar 2026 og 6 stundir yrðu gjaldfrjálsar frá 1. febrúar 2026. Fram að þessu hefur ein gjaldfrjáls stund tekið gildi á leikskólum bæjarins árlega yfir kjörtímabilið, eða með eftirfarandi hætti:

  • -1 gjaldfrjáls stund haustið 2022
  • -2 gjaldfrjálsar stundir haustið 2023
  • -3 gjaldfrjálsar stundir haustið 2024
  • -4 gjaldfrjálsar stundir haustið 2025
  • -5 gjaldfrjálsar stundir 1. janúar 2026
  • -6 gjaldfrjálsar stundir 1. febrúar 2026

Þessi ákvörðun er mikið fagnaðarefni og öruggt að með henni, ásamt mörgum öðrum aðgerðum og ákvörðunum á kjörtímabilinu, færum við gott bæjarfélag í allra fremstu röð.

-Framúrskarandi þjónusta og lífsgæði í Hveragerði

Fulltrúar Okkar Hveragerðis í bæjarstjórn og nefndum Hveragerðisbæjar hafa unnið statt og stöðugt að því að tryggja íbúum framúrskarandi þjónustu og lífsgæði í bæjarfélaginu. Rík áhersla hefur verið á fjölskylduvænt samfélag sem mótar að mörgu leyti meginstefið í stefnumálefnum Okkar Hveragerðis og málefnasamningi núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Unnið hefur verið markvisst að því að gera þessar áherslur að veruleika á kjörtímabilinu með margvíslegum stuðningi við fjölskyldur og börn. Um þetta hefur verið einhugur í meirihlutasamstarfi Okkar Hveragerðis og Framsóknar.

Okkar Hveragerði mun á komandi árum halda áfram að leita leiða til að styðja enn betur við barnafjölskyldur í Hveragerði með gæðin í forgrunni.

Hveragerði - bær í blóma!

Höfundar:

Sandra Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis og forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar

Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, b æjarfulltrúi Okkar Hveragerðis og v araformaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis




Skoðun

Sjá meira


×