Skoðun

Ekki eina ríkis­leið í skóla­málum, takk!

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Kastljósið beinist þessa dagana að skólamálum í kjölfar yfirlýsinga nýs ráðherra í barna-og menntamálaráðuneytinu um endurskoðun og uppstokkun á skólakerfinu. Það er fagnaðarefni að ráðherrann tali umbúðalaust um þau vandamál sem við blasa og að taka eigi á málunum.

Skóli án aðgreiningar á þrotum

Ráðherrann gerir sér grein fyrir því að stefnan um skóla án aðgreiningar hefur beðið skipbrot og að við þurfum að horfast í augu við það. Álagið í skólastofunum er oft á tíðum óbærilegt og ljóst fyrir löngu að bregðast verði við breyttri samsetningu nemenda í skólunum. Einnig er það jákvætt að taka samræmdu prófin upp að nýju og verður til mikilla bóta ef staðið verður við að birta einkunnir nemenda eftir skólum í landinu líkt og ráðherra boðar. Að birta niðurstöðurnar gefur skólum tækifæri til samanburðar og til að vega og meta aðferðir sínar. Það liggur fyrir að staðan er alvarleg og tala tölurnar sínu máli. Á Íslandi er mun meiri fjármunum varið til skólamála en að meðaltali innan OECD -ríkja en námsárangurinn er umtalsvert lakari en meðaltalið í þessum löndum.

Festumst ekki í rörsýn

Ég tók þessi mál upp á Alþingi í dag og hvatti ráðherra til að festast, í endurskoðun sinni, ekki í að gera upp á milli mismunandi leiða sem notaðar hafa verið í lestrarkennslu, ,,Byrjendalæsi“, „Kveikjum neistann“, „Lestur er lífsins leikur“ eða hvað aðferðirnar heita. Búum ekki til einhverja eina ríkisleið! Vænlegra til árangurs er að skapa umhverfi þar sem ólíkar og nýjar hugmyndir innan skólakerfisins verða til og fá að blómstra. Til dæmis væri áhugavert fyrir ráðherrann að kynna sér skólastarf innan sjálfstætt rekinna skóla en þeir hafa umtalsvert meira svigrúm en opinberu skólarnir til að beita nýjum aðferðum í störfum sínum og kennslu. Sjálfstætt reknir skólar eru afar mikilvægir í skólaflóru okkar en oftar en ekki hefur hugmyndaríkt og öflugt fólk átt frumkvæði að því að stofna slíka skóla til þess að auka fjölbreytni og valmöguleika í skólakerfinu. Skóli Ísaks Jónssonar, sem fagnar einmitt aldar afmæli á árinu, er gott dæmi þar um en nýsköpun í læsisaðferðum var einmitt þeirra sérstaða. Virkjum allt það metnaðarfulla og kraftmikla fólk sem við eigum í menntakerfinu og leyfum fjölbreyttum hugmyndum þeirra að njóta sín og nýtum okkur reynslu þeirra.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×