Erlent

Tók við verðlaunapeningnum og hyggst eiga hann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump var kampakátur með gjöfina.
Trump var kampakátur með gjöfina. Hvíta húsið

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók við Nóbels-verðlaunapening Maríu Corinu Machado, stjórnarandstöðuleiðtoga Venesúela, sem hún afhenti forsetanum í Hvíta húsinu í gær og hyggst eiga hann.

„María afhenti mér friðarverðlaunin sín fyrir þau störf sem ég hef unnið. Dásamlegur vottur um gagnkvæma virðingu. Takk María!“ sagði forsetinn á Truth Social í gær. Machado sagðist sjálf hafa ákveðið að gefa Trump verðlaunin fyrir aðgerðir hans í þágu frelsis Venesúela.

Trump hefur í langan tíma ásælst friðarverðlaun Nóbels og var síður en svo ánægður þegar Nóbels-verðlaunanefndin ákvað að verðlauna Machado í fyrra, enda hefur hann margstært sig af því að hafa bundið enda á hvorki meira né minna en átta stríð.

Machado tileinkaði forsetanum verðlaunin þegar hún fékk þau afhent en það dugði ekki til að hljóta náð fyrir augum Trump, sem hefur sniðgekk hana í kjölfar þess að Nicolás Maduro var komið frá völdum og ákvað þess í stað að koma varaforseta Maduro, Delcy Rodríguez, til valda.

Trump sagði þá meðal annars að Machado nyti ekki nægilegs stuðnings heima fyrir, þrátt fyrir að forsetaefni fylkingar hennar hefði unnið Maduro í forsetakosningunum árið 2024.

Óvíst er hvort Machado muni hagnast eitthvað á því að gefa Bandaríkjaforseta verðlaunapeninginn. Þá hefur Nóbels-verðlaunanefndin ítrekað að titillinn sjálfur, friðarverðlaunahafi Nóbels, sé ekki framseljanlegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×