Skoðun

Ekki ný hugsun heldur á­byrgðar­leysi

Anna Björg Jónsdóttir og Berglind Magnúsdóttir skrifa

Þeir sem vinna að stefnumótun og framkvæmd í málefnum eldra fólks (málaflokkur aldraðra) hafa ítrekað bent á nauðsyn nýsköpunar, samþættingu þjónustu og þróun nýrra úrræða fyrir ört stækkandi hóp aldraðra. En það sem nú er að gerast í stjórnsýslu málaflokksins á ekkert skylt við það. Þetta er þvert á móti skipulagslegt ábyrgðarleysi.

Að færa hluta þessa málaflokks á milli ráðuneyta af handahófi, án heildarsýnar og án skýrrar röksemdafærslu, er ekki víðsýni. Það er stefnuleysi.

Málaflokkur í stöðugri óvissu

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur málaflokkurinn verið í stöðugri óvissu. Í byrjun árs 2025 var ákveðið að færa hluta þjónustu við eldra fólk frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Hjúkrunarheimili, dvalarheimili og dagdvalir áttu skyndilega ekki lengur heima undir heilbrigðisráðherra, án þess að nokkur heildræn greining lægi að baki.

Þetta eru ekki jaðarmál. Hjúkrunarheimili, dvalarheimili og dagdvalir eru skilgreind sem heilbrigðisþjónusta. Rekstur þeirra er fjármagnaður með daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands.

Klippt í sundur án rökstuðnings

Þegar leið á árið 2025 varð ljóst að einungis húsnæði hjúkrunarheimila, ekki þjónustan sjálf, og almennar dagdvalir, ekki dagdvalir fyrir fólk með heilabilun, yrðu á ábyrgð félags- og húsnæðismálaráðherra. Málaflokkurinn var klipptur í sundur, án þess að fyrir lægi rökstuðningur.

Málefni eldra fólks eru stór og flókinn málaflokkur. Þau snúast um milljarða í opinberum útgjöldum, um að rétt þjónusta sé veitt á réttum tíma af réttum aðilum. Þau snúast um mönnunarkreppu í heilbrigðiskerfinu, um forvarnir, um þörf á aukinni heimaþjónustu, um að seinka eða koma í veg fyrir dýrar og íþyngjandi stofnanavistir og í dag einnig um að hægt sé að útskrifa fólk af Landspítala. Þetta krefst heildarsýnar. Ekki bútasaums.

Ábyrgð á flakki

Síðustu tólf mánuði hefur málaflokkurinn hikstað. Það er ekki vegna þess að starfsfólk ráðuneyta viti ekki hvað þurfi að gera. Það er vegna þess að pólitísk forysta hefur skapað óljóst og óstöðugt stjórnkerfi þar sem ábyrgðin er sífellt á flakki milli ráðuneyta.

Nú bætist svo við nýtt lag af óreiðu. Nýr mennta- og barnamálaráðherra, Inga Sæland, hyggst fara með stjórnarmálefni sem varða uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustuíbúða fyrir eldra fólk. Engin rök fylgja ákvörðuninni. Engin skýring. Engin sýn. Úr því sem komið var, hefði þá ekki verið eðlilegra að treysta nýjum félags- og húsnæðismálaráðherra til að halda áfram uppbyggingu húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili?

Þveröfug leið

Í dag er málaflokkur aldraðra dreifður á þrjú ráðuneyti: heilbrigðis-, félags- og húsnæðis- og mennta- og barnamálaráðuneyti. Á sama tíma vinna önnur lönd markvisst að því að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk. Hér er farið í þveröfuga átt.

Eldra fólk verður ekki sérstakur „málaflokkur“ fyrr en þörf skapast fyrir mikla þjónustu, það er að segja þegar heilsubrestur knýr á og færni minnkar. Þá þarf þjónustan að virka hratt, samhæfð og af fagmennsku. Hún getur ekki verið háð því hvaða ráðherra vill „taka með sér“ ákveðinn hluta málaflokksins.

Höfnundar eru öldrunarlæknir annars vegar og sálfræðingur hins vegar sem Höfundar starfa sem stjórnendur í öldrunarþjónustu.




Skoðun

Sjá meira


×