Skoðun

Fram­tíð barna okkar krefst meiri festu en fyrir­sagna

Kristín Thoroddsen skrifar

Undanfarna daga hefur umræðan um grunnskólann verið sundurlaus, upplýsingar óskýrar og hlutverk hans að nokkru leyti óljóst. Leiðir á borð við „Finnsku leiðina“ og „Vestmannaeyjaleiðina,“ með þróunarverkefnið Kveikjum neistann, eru dregnar fram eins og töfralausninina sé einfaldlega að finna þar. Slík nálgun gefur til kynna að með einum aðgerðapakka megi leysa öll vandamál grunnskólans.

Verkefni og áskoranir grunnskólans eru þó mun flóknari en svo að hægt sé að leysa þau með einu pennastriki eða skyndilausnum. Slíkar lausnir hafa aldrei skilað varanlegum árangri og tilraunastarfsemi í skólakerfinu ætti að forðast. Breytingar sem snerta framtíð grunnskólabarna krefjast vandaðrar og ítarlegrar umræðu.

Gerðar eru miklar kröfur til kennara og annars starfsfólks, og sömu kröfur ætti að gera til æðstu stjórnenda menntakerfisins. Ég fagna umræðunni, en hún verður að vera málefnaleg og laus við sleggjudóma og sökudólgaleit. Í slíkri umræðu tapa allir, ekki síst nemendurnir. Framtíð barna okkar mótast af ákvörðunum dagsins í dag og ábyrgð okkar er því mikil.

Hlutverk grunnskóla, er hann kominn út fyrir efnið?

Það þarf vart að fara yfir hvert hlutverk grunnskólans er. Hann á að tryggja öllum börnum og ungmennum á aldrinum 6–16 ára jafnan aðgang að námi og sinna kennslu samkvæmt aðalnámsskrá. Hugtök á borð við inngildingu, samþættingu, farsæld og fjölþættur vandi voru vart til fyrir fáeinum árum, en starfsemi grunnskóla hefur á skömmum tíma tekið miklum breytingum.

Kröfur til skóla eru breyttar og hlutverk kennara orðið mun flóknara en áður, oft langt út fyrir hefðbundið fagsvið þeirra. Verkefni grunnskólans eru fjölbreytt, en spyrja má hvort hann hafi fengið flóknari og umfangsmeiri verkefni en raunhæft er að leysa innan veggja skólans. Hefur hlutverk hans færst frá því að vera eingöngu menntastofnun yfir í að vera að hluta til heilbrigðisstofnun?

Mikilvægt er að horfast í augu við þá staðreynd að grunnskólinn er fyrst og fremst menntastofnun, ekki heilbrigðisstofnun. Verkefni sem ættu heima innan heilbrigðiskerfisins hafa í auknum mæli hafa flust inn í skólana, meðal annars vegna álags, manneklu og langra biðlista. Börn bíða allt of lengi eftir greining eða meðferð vegna andlegs vanda, kvíða, þunglyndi og hegðunarvanda. Afleiðingin er sú að kennarar og skólastjórnendur standa frammi fyrir verkefnum sem þeir hafa hvorki menntun né úrræði til að sinna. Þetta er hvorki sanngjarnt gagnvart starfsfólki skólanna né nemendum.

Hver er hinn raunveru vandi?

Í allt of langan tíma hefur hver bent á annan, á meðan hlusta og bíða nemendur með þá hugmynd í kollinum að þau séu í gagnslausum grunnskóla, drengir fara brátt að trúa því að þeir sé slakari en stúlkur og kennarar efast um ágæti sitt. En hvað er hið raunverulega vandamál? Hvenær varð verkefnið að mennta börn að vandamáli? Var það þegar eitt leyfisbréf var samþykkt eða þegar kennaranámið var lengt, þegar skóli án aðgreiningar var samþykktur, þegar flóttafólki og hælisleytendum fór að fjölga? Þegar símar ruddust inn í kennslustofuna eða spjaldtölvur tóku að einhverju leiti yfir og námsgagnastofnun hægði á útgáfu kennslubóka? Ábyrgð sveitarstjórnarmanna er mikil og hana tek ég alvarlega. Samfélag okkar hefur breyst mikið með sífellt meiri hraða, sem skapar óreiðu og bitnar á festu og markmiðum. Samkeppni er um athygli barnanna og erfitt getur verið fyrir þau að finna taktinn.

Hugsum í lausnum!

Foreldrar bera ríka ábyrgð á uppeldi barna sinna og skólinn getur ekki og á ekki að leysa þann þátt af hendi einn og sér. Samstarf heimila og skóla þarf að vera virkt, heiðarlegt og byggt á gagnkvæmri virðingu. Skólinn getur stutt við foreldrahlutverkið en ekki komið í stað þess. Þegar væntingar eru óljósar eða ósanngjarnar verður niðurstaðan oft sú að börnin tapa. Agi er ekki úrelt hugtak heldur grundvöllur öryggis, náms og vellíðanar. Skýr mörk, reglur og afleiðingar eru nauðsynlegar í skólastarfi, ekki sem refsing heldur sem leið til að skapa ramma þar sem allir fá tækifæri til að blómstra. Þegar agi er veikur verður kennsla erfiðari og námsumhverfið ótryggt, bæði fyrir nemendur og kennara.

Vandi grunnskólans einskorðast ekki við eitt atriði né einn hóp. Hann er margþættur og kallar á samstillt átak allra þeirra sem koma að menntun barna. Lausnir þurfa að byggja á raunsæi, fagmennsku og langtímahugsun en ekki skyndilausnum eða pólitískum slagorðum.

Skólasamfélagið þarf að vinna saman að skýrum markmiðum. Samstarf ríkis, sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara er forsenda þess að breytingar skili árangri. Skortur á sameiginlegri stefnu og stöðugum ramma skapar óöryggi og rugling, bæði innan skólanna og í samfélaginu. Börn þurfa stöðugleika og fyrirsjáanleika til að dafna.

Kennarar eru fagfólk og þurfa raunverulegt svigrúm til að sinna starfi sínu. Ábyrgð án valds er uppskrift að kulnun og brotthvarfi úr stéttinni. Ef við gerum kröfur til kennara verðum við jafnframt að treysta þeim, styðja þá og hlusta á þeirra faglega mat. Styrkur grunnskólans liggur fyrst og fremst í hæfum og öflugum kennurum.

Grunnskólinn er ekki vandamálið, hann er hluti af lausninni. En til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu þarf skýrari sýn, minni óreiðu og meiri ábyrgð á öllum stjórnsýslustigum. Börnin okkar eiga skilið menntakerfi sem byggir á festu, fagmennsku og samvinnu. Framtíð þeirra mótast af ákvörðunum sem við tökum í dag og sú ábyrgð hvílir á okkur öllum.

Höfundur er bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði og formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×