Skoðun

Menntun og svikin réttindi

Hilmar Freyr Gunnarsson skrifar

Fjölmargir sækja sér menntun erlendis og einkum vegna kostnaðar. Það er bæði eðlilegt og nauðsynlegt í litlu samfélagi að leita út fyrir landsteinana, afla þekkingar og reynslu og koma svo heim til að leggja sitt af mörkum. Þetta á sérstaklega við í hönnunar- og byggingargeiranum, þar sem námið erlendis er oft sérhæft, praktískt og í takt við alþjóðlega þróun. Samt blasir við sú undarlega staða hér á landi að sú menntun og þau starfsréttindi sem fólk fær erlendis eru ekki viðurkennd án verulegra takmarkana.

Dæmi um þetta er byggingafræðin. Ef einstaklingur lærir byggingafræði í Danmörku, lýkur viðurkenndu námi og fær þar með teikniréttindi samkvæmt dönskum lögum, er honum í raun ætlað að hafa fullt faglegt sjálfstæði. Hann má hanna, teikna og bera ábyrgð á mannvirkjum. En þegar sami einstaklingur snýr heim til Íslands breytist staðan skyndilega: réttindin gilda ekki lengur.

Hér heima þarf skv. 26 grein mannvirkjalaga viðkomandi að starfa á verkfræði eða arkitektastofu í þrjú ár undir handleiðslu, taka löggildingar námskeið hjá mannvirkjastofnun og fara í gegnum ferli með auknum kostnaði sem í raun jafngildir því að byrja upp á nýtt. Þrátt fyrir fullgilda menntun, starfsréttindi og oft áralanga starfsreynslu.

Þetta fyrirkomulag vekur upp margar spurningar. Fyrst og fremst: hvers vegna er menntun sem telst fullgild í Danmörku, landi sem við berum okkur gjarnan saman við, ekki talin fullnægjandi á Íslandi? Er íslenskt regluverk raunverulega að tryggja aukin gæði– eða er það fyrst og fremst hindrun sem verndar hefðbundna hagsmuni?

Á sama tíma og stjórnvöld tala um skort á fagfólki í byggingariðnaði, hækkandi byggingarkostnað og nauðsyn þess að auka framboð húsnæðis, er verið að setja kerfisbundnar hindranir í veg fyrir að menntað fólk geti starfað sjálfstætt. Þetta hægir á nýliðun, dregur úr samkeppni og ýtir undir hækkandi kostnað.

Þá verður líka að spyrja hvaða skilaboð þetta sendir ungu fólki. Af hverju ætti það að leggja á sig erfitt og kostnaðarsamt nám erlendis, ef það fær ekki notið þess hér heima nema að hluta og eftir margra ára bið? Í versta falli leiðir þetta til þess að fólk snýr einfaldlega ekki heim – eða hverfur aftur úr faginu.

Auðvitað er mikilvægt að tryggja gæði, fagmennsku og ábyrgð í mannvirkjagerð. Enginn efast um það. En það hlýtur að vera hægt að gera það með sanngjarnari og skýrari hætti. Til dæmis með raunhæfu mati á erlendu námi í mannvirkjagerð.

Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að menntun sem gildir annars staðar – gildi líka hér.

Höfundur er byggingafræðingur og húsasmíðameistari.




Skoðun

Sjá meira


×