Erlent

Vit­leysan „í þessum ó­þekka strák í Hvíta húsinu“ leiði vonandi til sjálf­stæðis

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Össur Skarphéðinsson ræddi Grænlandsmálin í kvöldfréttum Sýnar.
Össur Skarphéðinsson ræddi Grænlandsmálin í kvöldfréttum Sýnar. Vísir

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, vonast til þess að ásælni Bandaríkjaforseta gagnvart Grænlandi leiði af sér samning milli Grænlands og Bandaríkjanna sem eigi eftir að þoka Grænlendingum nær sjálfstæði. Allt sem Trump vilji fá frá Grænlandi hafi staðið Bandaríkjamönnum til boða áratugum saman. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, svaraði ekki spurningu blaðamanns NBC News í gær þegar um hvort forsetinn væri tilbúinn að beita hervaldi til að ná yfirráðum á Grænlandi. Leiðtogar Evrópu funduðu stíft í dag vegna óvissu og þróunar í alþjóðamálum.

Með augastað á sterkari ítökum á Íslandi

Ísland er ekki í hópi þeirra ríkja sem Trump hefur hótað hærri tollum. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi nefndarmaður í sérstakri nefnd um Grænland, vekur athygli á að forsetinn hafi frá fyrra kjörtímabili horft blíðum augum til Íslands og talið það mikilvægan hlekk í öryggiskeðju Bandaríkjanna.

„Þannig að ég tel að þegar tímanum vindur fram muni koma fram að hann hefur augastað á einhvers konar sterkari ítökum á Íslandi.“

Fram hafi komið af hálfu Trump-liða að þeir teldu rangt af forverum forsetans að fara með herinn frá Íslandi og slíta „í fússi“ á tengslin við Ísland.

„Þannig að ég held að hann vilji ekki styggja Íslendinga og kannski veit hann það af sögunni að við höfum reynst honum nokkuð snarborulegri við að koma Dönum af höndum okkar en hann. Ég held að við getum búist við því að sjá hann stíga í vænginn við okkur.“

Hann bendir á þá stöðu sem upp er komin að allnokkrar NATO-þjóðir hafa undanfarna daga sent liðsstyrk til Grænlands, NATO-ríkis, til að verja það með táknrænum hætti ásælni Bandaríkjanna, annars NATO-ríkis sem þar að auki er burðarstoðin í bandalaginu.

Ef þú hefðir sagt mér þetta fyrir fjórum til sex vikum síðan hefði ég sagt að þú værir galin. En þetta þýðir einfaldlega að NATO sé í meira uppnámi núna en nokkru sinni fyrr.

Traust NATO-ríkjanna til Bandaríkjanna sé að þverra.

„Og síðan bætist við þessi frekjutollur Trumps á þessi ríki sem ekki hafa viljað taka undir með honum varðandi ásælni hans gagnvart Grænlandi.“

Leiðtogum þeirra ríkja sé ofboðið og hafi gripið til þess sem þeir sjálfir kalla sprengjuvörpuna, að setja takmarkanir á starfsemi stóru tæknirisanna. Það gæti hæglega leitt af sér upphaf á framvindu sem gæti haft áhrif á allan heiminn.

Varnaraðstaða og málmar lengi staðið til boða

Íslendingar sem ræddu við Bjarka Sigurðsson fréttamann í Kringlunni í dag lýstu yfir óhug vegna stöðunnar í alþjóðamálunum.

Össur, sem var að koma heim úr ferð til Norðurlandanna, segir málið hafa verið á allra vörum í ferðinni. Þegar heim var komið hafi hver einasti maður rætt stöðuna við hann, og því ljóst að fólki sé órótt.

Hann segir þó ólíklegt að Trump muni ráðast inn í Grænland með hervaldi.

„Allt sem hann vill frá Grænlandi, hugsanlega aðstöðu til varna eða hugsanlegan aðgang að námum, hefur staðið honum til boða áratugum saman og Grænlendingar í reynd beðið eftir því.“

Össur bendir á að eitt af sælutímabilum í sögu Grænlands hafi verið þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku og Grænlendingar hófu að framleiða málma fyrir Bandaríkin.

„Þannig að þeir eru vonsviknir yfir því að Bandaríkjamenn hafi aldrei komið með fjármagn til þess að vinna námurnar.“

Þorgerður fundaði í Brussel

Össur spáir því að samningur um annars vegar varnar- og öryggismál og hins vegar vinnslu grænlenskra málma náist milli Grænlendinga og Bandaríkjamanna.

„Það er það sem Grænlendingar þurfa. Þeir þurfa ekki nema eina til tvær námur, en hafa um það bil hundrað til reiðu, þá geta þeir stigið frekari skref til sjálfstæðis.“

Þannig að ég hef þá von í brjósti að allt þetta brambolt og þessi vitleysa í þessum óþekka strák í Hvíta húsinu verði til þess að þoka þeim áfram á braut til sjálfstæðis, sem þeir vilja og eiga skilið.

Varnarmálaráðherrar Norðurlandanna og utanríkisráðherra Grænlands funduðu sem fyrr segir í höfuðstöðvum NATO í Brussel í dag.

„Við höfum lagt ríka áherslu á að sýna Grænlandi og Danmörku samstöðu og styðja við aukna viðveru og eftirlit á svæðinu,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins að fundinum loknum.

„En á sama tíma og við ræðum leiðir til að renna styrkari stoðum undir öryggi á svæðinu er nauðsynlegt að halda áfram að styðja ötullega við varnarbaráttu Úkraínu og bregðast við þeirri langvarandi ógn sem steðjar frá Rússlandi.“


Tengdar fréttir

Hættur að hugsa bara um frið fyrst hann fékk ekki Nóbelinn

Bandaríkjaforseti segist ekki lengur telja sig skyldugan til að hugsa aðeins um frið í heiminum eftir að hann hlaut ekki friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Þetta skrifar hann í bréfi til forsætisráðherra Noregs þar sem hann ítrekar hótanir vegna Grænlands.

Boðar leiðtogaráðið á aukafund vegna hótana Trumps

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins hefur ákveðið að kalla saman ráðið vegna hótana Donalds Trumps Bandaríkjaforseta er varða innlimun Grænlands. Trump boðaði í gær tolla á átta NATO-ríki sem höfðu sent hermenn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×