Skoðun

Frítt í Strætó og sund – Með fólkið í for­grunni

Ellen Calmon skrifar

Grunngildi jafnaðarmennskunnar er að jafna aðstöðu og tækifæri barna. Börn eru skilgreind „börn“ til 18 ára aldurs og það finnst mér að eigi að virða í allri reglusetningu og gjaldskrá. Í 1. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir „Í samningi þessum merkir barn hvern þann einstakling sem ekki hefur náð 18 ára aldri, nema hann nái fyrr lögræðisaldri samkvæmt lögum þeim sem hann lýtur.“ Barnasáttmálinn hefur lagalegt gildi á Íslandi eins og sjá má hér: https://www.althingi.is/altext/stjt/2013.019.html Ég vil að börn fái frítt í Strætó og sund.

Af hverju frítt í Strætó?

Með því að bjóða börnum frítt í Strætó erum við að ala upp nýja kynslóð sem nýtir mögulega frekar almenningssamgöngur en ella. Við erum að ala upp kynslóð sem er þá líklegri til að nýta Borgarlínuna. Við erum mögulega að sporna við því að 17 ára gömul börn leggi sumarhýruna sína fyrir til að kaupa fyrsta bílinn með tilheyrandi viðvarandi kostnaði fyrir þau eins og vera ber við rekstur bíls. Við erum þannig mögulega að draga úr aukningu bílaumferðar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur svo einnig jákvæð áhrif á loftslagsmálin. Við erum að draga úr skutli og börnin verða sjálfstæðari. Við erum að styðja við fjölskyldur sem hafa minna á milli handanna og börnin þeirra búa þá að sama aðgengi að Strætó og önnur börn, því það er ekki sjálfsagt að foreldrar hafi efni á Strætókorti fyrir börnin sín. Það má gefa sér að foreldrar sem ekki hafa efni á árskorti í Strætó skutli frekar, þó að skutl sé mögulega dýrara en Strætó þá verður það frekar fyrir valinu því það krefst ekki stórra eins skiptis útgjalda. Það að bjóða börnum frítt í Strætó hefur því víðtæk jákvæð áhrif á sjálfstæði barna, útgjöld foreldra og loftslagið svo eitthvað sé nefnt.

Af hverju frítt í sund?

Sundlaugarmenning á Íslandi var nýlega staðfest sem óáþreifanlegur menningararfur mannkyns á skrá UNESCO sem er æðsta viðkenning á sviði lifandi hefða. Í sundi mætist fólk af öllum stærðum og gerðum, þar koma kynslóðirnar saman til líkamsræktar og samveru. Sundið styður því við líkamlega, andlega og félagslega heilsu og eru laugarnar skilgreindar sem almenningsrými og almenningsgæði sem borgarbúar geta notið í þeim 8 laugum sem eru í Reykjavíkurborg. Þá er sundið einn af fáum stöðum þar sem símar eru ekki leyfðir og fólk getur komið saman, spjallað eða hvílt hugann og stundað núvitund.

Unglingar hafa margir hverjir gaman að því að skreppa í sund með vinahópnum og njóta saman, leika, busla og spjalla. Þeir geta jafnvel varið mörgum klukkustundum í sundi án síma. Koma þreyttir og glaðir heim. Samvera í sundi stuðlar að frekari tengslum barna í milli og kynslóðatengslum enda þekkt að fjölskyldur fara gjarnan saman í sund til að eiga fjölskyldustund. Með því að bjóða börnum í sund erum við að bjóða upp á heilnæma tómstund, hreyfingu og vellíðan sem öll börn hefðu þá aðgengi að og sömu möguleika á þátttöku, vellíðan, óháð bakgrunni, efnahag, fötlun, tungumáli, kyni eða fjölskyldugerð. Með því að bjóða börnum frítt í sund erum við að fylgja því sem kemur fram í 31. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar segir „Aðildarríki viðurkenna rétt barns til hvíldar og tómstunda, til að stunda leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess, og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.“

Ég vil byggja borg þar sem fólkið er sett í forgrunn og þar eru börnin alltaf fyrst!

Höfundur er formaður borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar og gefur kost á sér í 3.-5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fer fram rafrænt á heimasíðu Samfylkingarinnar nk. laugardag 24. janúar.

https://ellencalmon.is/




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×