Innlent

Gríðar­leg fjölgun hótana og dæmi um að setið sé fyrir lög­reglumönnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ofbeldi gegn lögreglu hefur aukist mikið síðasta áratuginn.
Ofbeldi gegn lögreglu hefur aukist mikið síðasta áratuginn. Vísir/Ívar Fannar

Fjöldi ofbeldisbrota gagnvart lögreglumönnum hefur nær tvöfaldast síðasta áratuginn. Dæmi eru um að glæpamenn hafi átt við bíla lögreglumanna og formaður Landssambands lögreglumanna kallar eftir harðari dómum vegna alvarlegra brota.

Samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóra hefur ofbeldis- og hótunarbrotum gagnvart lögreglumönnum fjölgað umtalsvert síðustu árin. 

Fjöldi tilkynntra hótana nærri því þrefaldaðist á árunum 2016-2025 og tilkynningum fjölgaði um 67% á milli 2024 og 2025. Þar er aukningin feiknamikil hjá embætti héraðssaksóknara en þrjátíu og tvö af þrjátíu og þremur brotum sem skráð voru hjá embættinu á síðasta ári áttu sér stað á Litla-Hrauni.

Vill harðari refsingar

Ofbeldisbrotum hefur einnig fjölgað mikið. Árið 2016 var tilkynnt um 67 ofbeldisbrot gagnvart lögreglumönnum en 132 á síðasta ári, nærri tvöfalt fleiri brot. Samtals hefur fjöldi hótana- og ofbeldisbrota meira en tvöfaldast á áratug.

Súluritin sýna gríðarlega fjölgun tilkynntra brota um ofbeldi og hótana um ofbeldi gagnvart lögreglumönnum.Vísir

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna segir tölurnar ekki segja til um alvarleika brotanna. Refsingar vegna brota þurfi að bíta.

„Okkur hefur fundist skortur þar á, okkur hefur ekki fundist verið nógu langir eða strangir dómar fyrir ofbeldi gagnvart lögreglumönnum eða opinberum starfsmönnum,“ sagði Fjölnir í viðtali í kvöldfréttum Sýnar.

Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssamands lögreglumanna.Vísir/Ívar Fannar

Hann kveðst hafa áhyggjur af þróuninni.

„Því ég veit þó það standi ekki í þessum tölum að margar af þessum hótunum eru frá skipulögðum glæpasamtökum eða fólki sem er í skipulögðum glæpum. ég hef áhyggjur af þeim hótunum.“

„Hafa komið að einhverjum að eiga við bílana sína“

Ofbeldi gagnvart lögreglu hafi margar birtingarmyndir.

„Hótun er ofbeldi, að skemma bílana okkar er ofbeldi, að sitja fyrir utan húsin okkar, að fletta upp bílnúmerunum okkar og leita að okkur. Þetta er allt ofbeldi og hótun.“ 

Þekkir þú dæmi um að það sé setið fyrir lögreglumönnum? 

„Við höfum heyrt um það. Við vitum að lögreglumenn hafa komið að einhverjum að eiga við bílana sína í bílageymslum eða fyrir utan húsið sitt.“

Hættulegt að vera lögreglumaður

Þegar ofbeldisbrot eru sundurliðuð eftir embættum sést að langflest brotin eru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þar hefur brotum fjölgað um tæplega 60% frá 2016. Suðurnes koma næst og Norðurland eystra þar á eftir. 

Fjöldi tilkynntra brota árið 2025 eftir embættum.Vísir

Í Vestmannaeyjum er tilkynnt um jafnmörg brot og á öllu Suðurlandi en staðan er öllu skárri annars staðar á landsbyggðinni.

Er hættulegt að vera lögreglumaður? 

Já, auðvitað er það hættulegt. Þú veist aldrei hvað gerist þegar þú mætir í vinnuna þann daginn og fólki getur liðið illa að vera lögreglumenn. En það velur þetta starf og stendur alveg undir því,“ segir Fjölnir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×