Íslenski boltinn

Fyrir­liði FHL er mættur í Laugardalinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rósey Björgvinsdóttir flytur til Reykjavíkur og gengur til liðs við Þrótt.
Rósey Björgvinsdóttir flytur til Reykjavíkur og gengur til liðs við Þrótt. @throttur

Þróttarar fengu flottan liðsstyrk í dag en félagið hefur sótt annan leikmann til FHL, sem féll úr Bestu deild kvenna í fótbolta síðasta haust.

Rósey Björgvinsdóttir hefur gengið til liðs við Þrótt frá FHL og skrifar undir þriggja ára samning um að leika með félaginu.

Rósey hefur verið fyrirliði FHL undanfarin ár en hún er sterkur varnarmaður og stóð sig mjög vel í Bestu deildinni á síðasta tímabili, þrátt fyrir að lið hennar ætti á brattann að sækja.

Rósey er fædd 2004 en hefur engu að síður leikið yfir 130 leiki með meistaraflokki og þar tæplega sjötíu í efstu og næstefstu deild. Rósey er annar leikmaðurinn sem Þróttur fær frá FHL, áður gekk sóknarmaðurinn Björg Gunnlaugsdóttir til liðs við félagið.

„Við bjóðum Rósey velkomna í Þrótt. Með henni gengur til liðs við félagið sterkur leikmaður sem á eftir að verða liði Þróttar í Bestu deild kvenna mikilvæg. Rósey er metnaðarfull og vön því að axla ábyrgð þó ung sé og hún á framtíðina fyrir sér hér í Laugardalnum,“ sagði Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×