Fótbolti

Feginn Frank fékk sér tvö stór rauðvínsglös

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Thomas Frank hélt starfi sínu hjá Tottenham og fagnaði fyrsta sigri ársins í gær. 
Thomas Frank hélt starfi sínu hjá Tottenham og fagnaði fyrsta sigri ársins í gær.  Getty/Luke Walker

Thomas Frank hefur verið undir mikilli pressu síðustu daga og vikur í starfi knattspyrnustjóra Tottenham, en hann fagnaði fyrsta sigri ársins í gærkvöldi og verðlaunaði sig með tveimur stórum rauðvínsglösum.

Tottenham lagði tíu leikmenn Borussia Dortmund að velli með öruggum 2-0 sigri. Cristian Romero og Dominic Solanke skoruðu mörkin, sem má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Tottenham - Dortmund 2-0

Þetta var fyrsti sigur Tottenham á árinu en eftir síðasta leik, 2-1 tap eftir sigurmark í uppbótartíma á heimavelli gegn West Ham, var knattspyrnustjórinn Thomas Frank púaður af velli. Hann var því feginn að geta fagnað í gærkvöldi.

„Fyrir mér snýst þetta um liðið, en ég skil að þú látir spurninga snúast um mig“ sagði Frank þegar Sky Sports spurði hann um þýðingu sigursins fyrir sig.

„Mér hefur alltaf fundist starfsfólk félagsins, leikmenn og eigendur vera að róa í sömu átt. Við erum öll á sömu blaðsíðu og erum að gera hluti sem sýna að við séum á réttri braut, en þetta var frábær sigur og ég er fullmeðvitaður um mikilvægið“ bætti Frank við.

Margir bjuggust við því að tilkynning myndi berast frá Tottenham á mánudagsmorgun, um brottrekstur Frank, en hann hélt sínu starfi og sagði frá því að hann hefði farið í hádegismat og tekið fund með stjórnendum félagsins. Hann verðlaunaði sig svo með rauðvíni eftir sigurinn í gær.

„Ég ætla að fá mér tvö stór rauðvínsglös, ég held að það sé bara nauðsynlegt“ sagði Frank léttur í bragði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×