Skoðun

Staðan á húsnæðis­markaði or­sök fá­tæktar ein­stak­linga og fjöl­skyldna – Hug­mynd að lausn við bráða­vanda

Magnea Marinósdóttir skrifar

Sem frambjóðandi á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar eru það einkum jafnréttis- og mannréttindamál sem standa hjarta mínu nær. Ég vil stuðla að því að allir geti fengið tækifæri til að láta drauma sína rætast. Til þess að svo verði þurfa grundvallarforsendur að vera til staðar s.s. aðgangur að heilnæmu húsnæði. Þá þarf dagsbirta og útloftun innanhúss að vera í góðu lagi auk nægra leiksvæða, bílastæða og gróðurs. Það var ánægjulegt að sjá að ljósvist var nýlega í fyrsta sinn skilgreind í byggingarreglugerð. Reglugerðin mun hjálpa við koma í veg fyrir að þétting byggðar fari út af sporinu s.s. þegar íbúðir, einkum hugsaðar fyrir þau efnaminni, eru heimilaðar með glugga eingöngu í norður sem augljóslega takmarkar birtu og þar með sjálfsögð lífsgæði.

Að bjóða þeim er lifa við verri kjör upp á slíka valkosti þegar kemur að íbúðarhúsnæði er fjarri anda jafnaðarmennskunnar. Saga verkamannabústaðanna sem risu við Hringbraut upp 1930 og uppbygging Breiðholtshverfisins á 7. og 8. áratug síðustu aldar endurspeglar jafnaðarstefnuna en þá var þeim, sem minna hafa milli handanna, gefinn kostur á að eignast gott húsnæði á viðráðanlegum verði. Slík er ekki staða þeirra efnaminni í dag. Þvert á móti. Ástæðan er einkum sú að félagslega húsnæðiskerfið var lagt í rúst um aldamótin af ríkistjórn Sjálstæðis- og Framsóknarmanna eins og ég fjalla um í grein frá 2024. Enn sér ekki fyrir endann á hörmulegum afleiðingum þess fyrir venjulegt fólk, hvað þá hina efnaminni.

Himinhár húsnæðiskostnaður sem orsök fátæktar

Mælikvarðinn á bága fjárhagsstöðu fólks í rannsóknum Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, er hvort fólk geti mætt óvæntum útgjöldum upp á 100 þúsund krónur. Samkvæmt rannsóknarniðurstöðum á um 30% launafólks erfitt með að ná endum saman. Ástæðan er einkum vegna húsnæðiskostnaður og leiga vegur mjög þungt en tölur sýna að 23% innfæddra íbúa og 75% aðfluttra búa í leiguhúsnæði. Allt að 50% til 70% af ráðstöfunartekjum fólks getur farið í leigu enda ekkert lögbundið þak á leiguverði. Svo hátt hlutfall tekna til að fá aðgang að þaki yfir höfuðið, grunnöryggi, er ekki í anda jafnaðarstefnunnar en geta má þess að u.þ.b. 30% fólks er svo lánsamt að búa í skuldlausu húsnæði.

Rannsóknir Vörðu sýna jafnframt að af þeim sem búa við bága fjárhagsstöðu eru 27% innfædd en 42% aðflutt. Allt að 18% innfæddra og 37% aðfluttra búa við skort á félags- og efnahagslegum gæðum skv. mælikvörðum. Bág fjárhagsstaða foreldra hefur síðan veruleg hamlandi áhrif á lífsskilyrði og framtíðartækifæri barna eins og rannsóknir Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Hagstofunar hafa staðfest eins og ég fjalla um í annarri grein. Foreldrarnir hafa t.a.m. ekki efni á að kaupa næringarríkan mat, borga fyrir tómstundastarf, fatnað o.s.frv. eftir að hafa borgað húsaleiguna ellegar afborgunina af húsnæðisláninu.

Sýnum samstöðu með hinum efnaminni og finnum lausn við bráðavanda

Reykjavíkurborg undir forystur Samfylkingarinnar hefur tekið skref til að jafna aðstöðu barna með því að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir og frístundakort. Það dugar eigi síður ekki nægilega þegar fólk býr við viðstöðulaust húsnæðisóöryggi og nauðbeygt til að taka sig reglulega upp með alla sína búslóð og börn og flytja annað, jafnvel í annað hverfi, með öllu því raski sem því fylgir fyrir fjölskyldur, ekki síst börn og ungmenni. Þetta er óboðlegt í okkar ríka samfélagi og fyrir marga ríkir neyðarástand sökum fátæktar.

Það eiga að vera sjálfsögð mannréttindi að hafa aðgang að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Óhagnaðardrifin íbúðafélög, heildarsamtök verkalýðsfélaga og einstök verkalýðsfélög hafa tekið höndum saman um að vinna bót á þessum mannréttindum fólks sbr. Bjarg og Blær sem hafa boðið upp á hagkvæmar íbúðir til langtímaleigu frá árinu 2019 og 2025.

En betur má ef duga skal við að leysa bráðavanda þeirra sem standa höllum fæti, einkum barnafjölskyldna. Það þarf að ráðast í átak eins og var gert þegar Breiðholt var reist á 7. og 8. áratug síðustu aldar til að leysa aðkallandi húsnæðisvanda borgarinnar. Sá vandi stafaði m.a. af fjöldaflutningi fólks í borgina af landsbyggðinni í leit að atvinnu s.s. vegna afleiðinga kvótakerfisins á sjávarpláss og breyttra atvinnuhátta í landbúnaði.

Fyrstu fjölbýlishúsin risu 1967 samkvæmt kjarasamningi sem ríkisstjórn og verkalýðshreyfingin gerðu með sér. Var það gert til að láglaunafólk geti eignast íbúð á hentugri kjörum en áður hafði tíðkast og kom bætt húsnæðis öryggi í stað beinna launahækkana. Á skömmum tíma risu þrjú fjölmenn og frekar fjölbreytt íbúðahverfi með um 25 þúsund íbúum og þangað sóttu barnafjölskyldur í stórum stíl.

Í dag stöndum við frammi fyrir, á sama mælikvarða, húsnæðisvanda sem er einkum tilkomin vegna þeirra öfugþróunar sem hefur orðið á eignamarkaðnum síðan um aldamótin, óundirbúinnar snarfjölgunar ferðamanna sem leiddi til aukinnar eftirspurnar eftir húsnæði sem leiddi aftur til þess að hingað til lands kom fjöldi fólks, einkum frá evrópska efnahagssvæðinu, til að leggja hönd á plóg í íslensku samfélagi, einkum í tengslum við byggingarstarfsemi, ferðamennsku, þjónustu og umönnunarstörf. Náttúruhamfarirnar í Grindavík vógu einnig þungt.

Eins og kom fram í máli Mariana Mazzucato, eldklárs prófessors við University College London og stofnandi og forstöðumaður UCL Institute for Innovation and Public Purpose, á fundi um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar haldinn af forsætisráðuneytinu þá er hægt að vinna hluti hratt, lyfta Grettistaki, ef aðilar þ.e. ríkið, sveitarfélög, stéttarfélög og atvinnufyrirtæki eru nánast herfræðilega samstillt og leiðbeinandi hvatar og þversamfélagslega bætandi markmið liggja skýr fyrir að hálfu stjórnvalda.

Um 500 viðlagasjóðshús voru reist sökum eldgossins í Vestmannaeyjum.

Hví ekki íhuga að reisa með þjóðfélagslegu átaki og með sambærilegum hætti ný hverfi smárra einbýlis- og raðhúsa og lágreistra fjölbýlishúsa þar sem fyrir lægi opinbert brautargengi til að framleiða í stórum stíl til aukinnar atvinnusköpunnar á tímum vaxandi atvinnuleysis. Leita mætti í þeim efnum til samvinnu í reynslubanka norrænna og baltneskra framleiðenda. Slíkt útilokar ekki að byggðar væru jafnhliða íbúðarblokkir og þá með nýjustu og bestu mögulegu tækni með tilliti til hagkvæmni, mygluleysis og endingar. Slíkt væri þríbent lausn til að bregðast í fyrsta lagi við umræddum bráðavanda og í annan stað til að bjóða upp á fjölbreytta búsetukosti í samræmi við almennan vilja fólks og jafnaðarstefnuna samhliða því að leggja undirstöðu að sérhæfum iðnaði hérlendis byggðum á fjöldaframleiddum húsum sem einnig gætu nýst í aðra þjónustu s.s. staðlaðra kennslustofa og leikskóla sem er mikil vöntun á eins og flestir vita. Það gæti líka verið leið til að taka til í rekstri borgarinnar.

Af landsvæðum eigum við nóg og samhliða þéttingu byggðar eigum við að byggja sjálfbær, vistvæn hverfi með fallegu skipulagi og spennandi sambúð lágreistra og háreistra húsa á réttum stöðum í landslaginu til áherslu- og útsýnisauka allt saman í eðlilegu nýtingarhlutfalli.

Vellíðan borgarbúa

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að fátækt fólk er ósköp venjulegt fólk sem sætir því miður stundum fordómum vegna stöðu sinnar. Það auk sumra þeirra sem eldri eru og ungs fólk í hrönnum nær ekki með nokkru móti að koma þaki yfir höfuðið. Þessir hópar upplifir stöðugt vonleysi og vanmátt vegna þjóðfélagslegra aðstæðna sem það hefur takmarkaða eða bara enga stjórn á. Þess í stað er líf og hamingja fólks að stórum hluta háð ákvörðunum þeirra fulltrúa sem kosnir eru til valda. Ég legg því til að farnar verði leiðir sem áður hafa verið teknar í samvinnu ríkis, Reykjavíkurborgar og verkalýðshreyfingarinnar með hraða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bankastofnanir og traust leigufélög hvort sem er í eigu Reykjavíkurborgar eins og Félagsbústaðir og/eða stéttarfélaga þurfa einnig leggjast á í eitt í sameiginlegu átaki í samræmi við núverandi húsnæðisstefnu.

Nú er tækifæri, með stórauknum skilningi fagfólks á því hvar raunveruleg gæði umhverfis og skipulags liggja. Með bættri hönnun og þverfaglegri samvinnu er hægt að bæta svo um nemur og skapa fjölbreytt, falleg og gróðurík hverfi, allt í sömu andrá, byggðum af samfélagslegri hagkvæmni og nýsköpun á grunngildum jafnaðarmennskunnar.

Höfundur gefur kost á sér í 2.-4. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Forvalið fer fram 24. janúar er opið öllum sem skrá sig í Samfylkinguna í síðasta lagi 22. janúar.




Skoðun

Sjá meira


×