Fótbolti

Telur starf Guar­diola í hættu: „Hélt ég myndi aldrei á minni lífs­leið segja þetta“

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Gunnlaugsson segir Pep Guardiola búinn að rífa biblíuna sína í sundur og endurskrifa hana.
Arnar Gunnlaugsson segir Pep Guardiola búinn að rífa biblíuna sína í sundur og endurskrifa hana. Samsett/Getty

Eftir tvö „sannfærandi“ töp í röð hjá Manchester City, gegn Manchester United og norska liðinu Bodö/Glimt, segir Arnar Gunnlaugsson mögulegt að Pep Guardiola verði hreinlega rekinn, þrátt fyrir allt sem hann hefur áorkað á sínum einstaka ferli.

„Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta en það er möguleiki á að hann verði rekinn,“ sagði Arnar í Meistaradeildarmörkunum á Sýn Sport í gærkvöld. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Arnar fór yfir stöðu Pep Guardiola

Arnar sagði aðra þjálfara, meira að segja þjálfara smáliðs í Meistaradeildinni á borð við Bodö/Glimt, hafa tekist að „outsmarta“ Guardiola í vetur. Þó að liðið sé í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og 7. sæti Meistaradeildar Evrópu sýni síðustu leikir að eitthvað mikið vanti upp á.

„Það er sama vandamál að eiga sér stað núna og í fyrra – þeir ráða ekki við að missa boltann. Það var aðalsmerki biblíunnar hjá Guardiola, að bregðast við því hvað þyrfti að gera ef liðið missti boltann.

Krabbameinið frá því í fyrra er að endurtaka sig heldur betur í síðustu leikjum. Auðvitað vantar 2-3 hafsenta en þá þarf kerfið að taka utan um nýju leikmennina. Það á að vera það sterkt hjá liði eins og City að það taki utan um ungu strákana. Kerfið er að bregðast, frekar en einhverjir einstakir leikmenn,“ sagði Arnar og lét svo enn stærri orð falla þegar hann sagðist telja mögulegt að Guardiola yrði sparkað.

„Næsta þrep á eftir stolti er stundum heimska“

„Ég hélt ég myndi aldrei á minni lífsleið segja þetta. City-menn eru með miklu betri greiningartækni en við nokkurn tímann, komnir með skrímsli í ákvörðunartökum og strúktúr. Þeim er ekki skemmt sko. Alveg eins og Chelsea og þessum liðum var ekki skemmt. Þú færð ekki endalausan séns í íþrótt eins og fótbolta.

Ég hélt ég myndi aldrei segja þetta því hann er búinn að breyta leiknum, en hann er bara á rangri leið núna í taktíkinni. Næsta þrep á eftir stolti er stundum heimska. Það er oft rosa þunn lína þarna. Ég ætla ekki að segja að hann sé heimskur en stoltið er kannski aðeins að vefjast fyrir honum,“ sagði Arnar og Atli Viðar Björnsson tók undir með honum:

„Manni finnst það eitthvað svo fjarstæðukennt að Manchester City gæti rekið Guardiola en allir þjálfarar heims væru í hættu með þennan leikmannahóp í höndunum, og þann árangur sem hann hefur sýnt síðan fyrir jól.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×