Skoðun

Endurræsum fyrir börnin okkar og kennarana

Jón Pétur Zimsen skrifar

Öllum almenningi er ljóst að endurræsa þarf menntakerfið. 40% nemenda eru ekki með grunnfærni í lesskilningi eftir 10 ára skyldunám og 2–3 ár í leikskóla. Kerfið er dýrt en skilar langt frá því þeim árangri sem börnin okkar eiga rétt á.

Í umræðunni síðustu mánuði hefur hver höndin verið uppi á móti annarri og ýmsu haldið fram sem venjulegt fólk finnur að stenst ekki. Ýmsir ,,fræðimenn“ þvæla og þykjast vita, en staðan versnar samt ár frá ári. Fólk sér í gegnum þetta, það er ekki fífl.

Síðastliðin rúm 20 ár hefur grafið um sig, í menntakerfinu, vírus sem hefur fengið að dafna að mestu óáreittur. Þetta gerðist hægt og rólega, þannig að margir stjórnmálamenn, allra flokka, brugðust ekki við með réttum hætti þrátt fyrir mikla ábyrgð.

Það eru ekki ýkja margir einstaklingar sem breiða út vírusinn, en þeir eru valdamiklir og hafa stýrt ferð menntakerfisins, ásamt fylgihnöttum sínum, í þágu eigin valda en ekki barnanna okkar.

Það er nefnilega fólk sem stýrir því í hvað tíma og fjármagni er varið, ekki andlitslaust kerfi. Þetta fólk er m.a. að finna í ráðuneytum, stofnunum, háskólum og samtökum, og sumt af því hefur varið ríkjandi stöðu og völd með blaðaskrifum og viðtölum.

Hefur einhver orðið var við að þessir valdamenn hafi síðastliðin 20 ár sagt:

„Við eigum hlut í stöðu menntakerfisins. Við berum ábyrgð.“

Enginn hefur axlað ábyrgð á stöðunni en margir tilbúnir að verja ríkjandi stöðu, sjálfsmynd sína og eigin völd.

Kennarar hafa þurft að þola þetta árum saman. Það veldur vanlíðan að leggja hart að sér og námsárangur mælist ítrekað lítill. Það er niðurbrjótandi að vinna eftir dagskrá/aðalnámskrá sem er óskýr, villandi og sundrandi. Langflestir kennarar eru hugsjónamenn en vinna við ómögulegar aðstæður á köflum og eiga svo miklu betra skilið.

Vírusinn festi rætur fyrir um 20 árum og hefur smitað kerfið víða. Með endurræsingu myndum við uppfæra stöðuna, setja inn nýtt vírusvarnarforrit og hreinsa sérhagsmunina út. Þetta er ekki skyndilausn heldur heildarlausn sem þarf ekki að kosta mikið og myndi leysa kennarana og menntakerfið úr viðjum þeirra sem hafa slegið eignarrétti sínum á það.

Sem betur fer hafa skólar blótað í laumi og unnið utan kerfisins og árangurinn er eftir því: Mikill námsárangur, góð líðan nemenda, ánægðir foreldrar og lágur kostnaður. Þetta er hægt – en þá þarf að endurræsa.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×