Handbolti

„Ég er bara Króati á morgun“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta.
Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta. Vísir/Vilhelm

Dagur Sigurðsson segir ávallt sérstakt að mæta Íslandi en hann mun stýra Króatíu gegn strákunum okkar á EM á morgun.

Ísland og Króatía mætast í fyrsta leik í milliriðli sem leikinn er í Malmö klukkan 14:30 á morgun. Skammt er stórra högga á milli hjá Króötunum sem töpuðu illa fyrir Svíum í lokaleik riðlakeppninnar í gær.

Klippa: Dagur tilbúinn að takast á við strákana okkar

Dagur var ekki fyllilega búinn að jafna sig á tapinu þegar fjölmiðlafólk bar að garði á hóteli króatíska landsliðsins í Malmö í morgun.

„Það er svona varla. Það er smá pirringur í manni. Við spiluðum bara mjög illa. Auðvitað er sárt ef maður tapar á síðustu sekúndu með einu marki en ef maður spilar ekki nógu góðan leik verður maður pirraður,“ segir Dagur.

Er spilamennskan áhyggjuefni?

„Það er áhyggjuefni. Mér finnst við ekki hafa fundið taktinn. Við spiluðum tvo leiki við Þjóðverjana sem voru ekki nógu góðir. Það er ekkert launungarmál að við erum ekki að spila eins og í fyrra,“ segir Dagur en Króatía var gríðarsterkt á HM í fyrra sem fór að stórum hluta fram á heimavelli þeirra í Zagreb.

Króatía vann þar meðal annars sigur á Íslandi sem skaut þeim króatísku áfram úr milliriðli á kostnað strákanna okkar. Dagur segir ávallt sérstakt að mæta Íslandi.

„Það er alltaf eins og það er. Það er bara gaman að því. Það eru margir góðir vinir mættir á hótelið. Það styttist aðeins í brosið þegar maður hittir drengina. En ég er bara Króati þarna á morgun og gef allt í það,“ segir Dagur.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×