Fótbolti

„Lagar lekann í smá­stund en þetta er ekki Liverpool-leiðin“

Sindri Sverrisson skrifar
Arne Slot og hans menn voru kátir eftir 3-0 sigurinn í Frakklandi í gærkvöld.
Arne Slot og hans menn voru kátir eftir 3-0 sigurinn í Frakklandi í gærkvöld. Getty/Stuart Franklin

Þó að Liverpool hafi unnið góðan 3-0 útisigur gegn Marseille í gærkvöld eru sérfræðingarnir í Meistaradeildarmörkunum á Sýn Sport ekki hrifnir af þeirri miklu breytingu sem orðið hefur á leikstíl liðsins frá því að Jürgen Klopp var við stjórnvölinn.

Varfærnisleg nálgun Arne Slot var til umræðu í þættinum í gærkvöld og sýnt hvernig Liverpool leyfði Marseille að vera með boltann en þétti þess í stað raðirnar aftar á vellinum. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Umræða um Liverpool eftir sigurinn á Marseille

„Því miður virðist þetta vera það sem Slot vill standa fyrir. Þetta er hans bolti og hann vill spila svona, stuðningsmönnum Liverpool til mikillar mæðu. Ég held að það séu fáir sem voru djúpir á Klopp-tímanum sem eru ánægðir og finnst þetta skemmtilegt,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

„Fjórir fremstu eru miklu lélegri í fyrstu pressu og þessari „endurpressu“ heldur en Liverpool var þegar liðið var upp á sitt besta fyrir 2-3-4 árum. Þeirra einkenni hefur breyst,“ sagði Atli Viðar og Arnar Gunnlaugsson var hjartanlega sammála því.

„Þeir voru ekki alveg svona í fyrra. Voru í „mid block“ en agressívari í að stíga upp. Þeir voru líka með leikmenn til þess, Luis Diaz þar fremstur í flokki. Slot byrjaði að bakka með liðið, eðlilega, því það var að fá allt of mörg mörk á sig. Voru lélegir í varnarleik. Það fyrsta sem handbókin segir þér þá að gera er að þétta aðeins raðirnar og byrja að vinna út frá því. En stuðningsmenn og ég persónulega fíla mikið betur þetta DNA hjá Liverpool þegar menn fengu að stíga aðeins á bensíngjöfina og vera ekki svona rosalega passívir. Jú, þú kannski lagar lekann í smástund en þetta er ekki Liverpool-leiðin,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×