Skoðun

Hvar er unga jafnaðarfólkið í Ráð­húsinu?

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar

Tólf ár eru liðin frá því ég tók þátt í mínu fyrsta prófkjöri og ég er enn eini nýi ungi borgarfulltrúinn sem hefur verið kjörinn í sögu Samfylkingarinnar í Reykjavík. 5 kosningar, 5 prófkjör, bara ég. Það eru heil 5 ár frá því ég hætti í borgarstjórn. Mig langar ekki til að vera lengur ein í þessum klúbbi. Þess vegna styð ég ungu frambjóðendurna í prófkjöri Samfylkingarinnar, Bjarnveigu Birtu Bjarnadóttur sem sækist eftir 3. sæti og Stein Olav Romslo sem sækist eftir 4. sæti.

Ég þekki af eigin raun hversu mikilvægt það er að ungt jafnaðarfólk fái raunverulegt tækifæri til áhrifa. Þegar ég var kjörin borgarfulltrúi 2014 fyrir Samfylkinguna var ég eina unga í hópnum og ég var ennþá yngst fjórum árum seinna.

Það skiptir raunverulegu máli að ungt fólk hafi rödd í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ungt fólk er oftast hópurinn sem er enn að borga niður húsnæðislánið sitt eða jafnvel ennþá að reyna að kaupa fyrstu eign. Ungt fólk er oftast hópurinn sem er ennþá með börn á biðlista eftir leikskólaplássi og hópurinn sem hvað mest myndi græða á því að þurfa ekki að keyra bíl í borg þar sem raunverulegt frelsi er til að velja sinn eigin samgöngumáta, t.d. borgarlínu.

Rödd ungs jafnaðarfólks á ekki að vera undantekningin eins og ég var heldur sjálfsagður hluti af kjörnum fulltrúum Samfylkingarinnar. Birta og Stein hlutu skýrt og lýðræðislegt umboð í ungliðaprófkjöri Hallveigar í desember, þar sem kjörsókn var afar góð. UJ hefur talað, við eigum að hlusta á þau. Svo völdu þau líka svo góða frambjóðendur, Birtu og Stein.

Birta og Stein eru ólík að upplagi en einmitt þess vegna ná þau til breiðs hóps kjósenda. Birta, þriggja barna móðir, uppalin í Breiðholti og búsett í Grafarvoginum, þekkir af eigin raun áskoranir barnafjölskyldna í Reykjavík. Reynslan hennar úr rekstri og stjórnun er einmitt það sem Samfylkingin þarf til að tryggja ábyrgan og skýran rekstur borgarinnar og sterkari úthverfi.

Stein færir með sér dýrmæta reynslu úr skólakerfinu sem kennari og hefur starfað ötullega í grasrót Samfylkingarinnar. Borgarfulltrúi með beina reynslu af gólfinu í skólum borgarinnar eru ómetanlegir þegar teknar eru stórar ákvarðanir. Áherslur Stein á vellíðan barna með aukinni stoðþjónustu þegar kemur að sálfræðiþjónustu og íslenskukennslu fyrir aðflutt börn eru jafnaðarstefnan í verki.

Við stöndum á tímamótum. Enginn nýr ungliði hefur verið kosinn í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna síðan 2014. Það er ekki ásættanlegt. Birta og Stein sameina reynslu og ferska sýn, rótgróna jafnaðarstefnu og bjarta framtíð fyrir bæði Samfylkinguna og Reykjavík. Ég veit hversu mikið það skiptir máli að fá tækifærið, þess vegna hvet ég félagsfólk Samfylkingarinnar til að veita þeim það traust sem þau eiga skilið.

Höfundur er fyrrverandi borgarfulltrúi og eini ungi nýliðinn sem hefur verið kosinn í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna.




Skoðun

Sjá meira


×