Skoðun

Hver leyfði að­gangs­gjald að náttúru­perlum?

Runólfur Ólafsson og Breki Karlsson skrifa

Á síðustu 10 árum hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða úthlutað 6,6 milljörðum króna af fjármunum skattgreiðenda til uppbyggingar ferðamannastaða. Skilyrði styrkveitinganna er að staðirnir séu opnir gjaldfrjálsri umferð almennings. Með öðrum orðum, ekki má innheimta aðgangseyri.

Á fjölmörgum ferðamannastöðum sem hafa fengið styrki úr framkvæmdasjóðnum er rukkað fyrir aðgang í trássi við þessi skilyrði. Það er gert með ofteknum bílastæðagjöldum. Afkomutölur sýna að kostnaður við rekstur bílastæða og salerna er sums staðar innan við helmingur af tekjunum. Allt umfram það er ekkert annað en gjald fyrir aðgang að viðkomandi ferðamannastað. Slíkt er ekki aðeins óheimilt samkvæmt reglum framkvæmdasjóðsins heldur stríðir gegn almannarétti um frjálsa för um landið.

Aðgerðalaus Ferðamálastofa

Ferðamálastofa stýrir Framkvæmdasjóðí ferðamannastaða. Ferðamálastofa heldur því fram að heimilt sé að taka gjald fyrir veitta þjónustu við staði sem hafa fengið styrki úr framkvæmdasjóðum og telur að afnot bílastæða og salerna sé í þeim flokki.

Afstaða Ferðamálastofu kemur á óvart. Hvers vegna fá landeigendur að komast upp með að innheimta mun hærri bílastæðagjöld en þarf til að standa undir þjónustu? Hvað er það annað en aðgangseyrir að ferðamannastöðum?

Styrkirnir skapa grundvöllinn fyrir bílastæðainnheimtu

Á mörgum þessara staða væri lítill grundvöllur fyrir komum ferðamanna ef ekki væri vegna styrkja úr framkvæmdasjóðnum. Þeir skapa bætt aðgengi, auka öryggi og stuðla að náttúruvernd. Oftast nær eru það Umhverfisstofnun, þjóðgarðar og sveitarfélög sem sækja um í Framkvæmdasjóðinn og annast framkvæmdirnar. Landeigendur sjálfir eru þar í miklum minnihluta en snöggir að mæta til að til að setja upp bílastæði og taka gjald langt umfram þörf. Fyrir framan nefið á Ferðamálstofu gera þessir aðilar íslenskar náttúruperlur að féþúfu, þó svo engin heimild sé til þess.

Tveggja milljarða króna tekjulind

Vægt áætlað munu bílastæðagjöld skila landeigendum 2 milljörðum króna í bílastæðatekjur við ferðamannastaði á þessu ári. Aðeins hluti þessara tekna fer í kostnað við rekstur bílastæða. Á hluta þessara bílastæða er salernisaðstaða, en á öðrum engin. Sama gjald er þó innheimt á flestum þeirra, óháð því hve kostnaðarsöm þjónusta er þar veitt. Þetta er þó ekki eini kostnaður ferðamanna því bílastæðafyrirtækin sem sjá um innheimtuna taka gjald aukalega fyrir það.

Ferðamálastofa á að grípa í taumana

Bílastæðagjöld umfram kostnað eru ekkert annað en ólögmætur aðgangseyrir. Ferðamálastofa hefur í hendi sér að taka á þeirri græðgisvæðingu sem fengið hefur að viðgangast. Neytendasamtökin og FÍB skora á Ferðamálastofu að grípa í taumana og setja bílastæðabröskurum skorður. Þögn er sama og samþykki.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna




Skoðun

Sjá meira


×