Handbolti

Elvar úr leik í átta vikur: „Hans verður sárt saknað“

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson er lykilmaður í besta liði Þýskalands, Magdeburg, líkt og í íslenska landsliðinu.
Elvar Örn Jónsson er lykilmaður í besta liði Þýskalands, Magdeburg, líkt og í íslenska landsliðinu. EPA/Robert Hegedus

Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson hefur nú gengist undir aðgerð á Íslandi vegna handarbrotsins sem varð til þess að hann spilar ekki meira á Evrópumótinu í handbolta.

Elvar varð að draga sig úr EM-hópnum eftir að hafa meiðst gegn Ungverjum á þriðjudaginn og ljóst að skarð hans er vandfyllt. Mosfellingarnir Elvar Ásgeirsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson eru þó nú til taks í hans stað.

Magdeburg, félagslið Elvars Arnar, greindi frá því í dag að vegna meiðsla þessa 28 ára lykilmanns væri búist við því að hann yrði frá keppni í að minnsta kosti átta vikur.

„Meiðsli Elvars eru auðvitað mikið áfall,“ sagði Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburgar, í tilkynningu félagsins.

„Elvar leikur burðarhlutverk í okkar leikskipulagi og er mikilvægur hluti af liðinu. Hans verður sárt saknað hjá SC Magdeburg. En fyrst og fremst finn ég til með Elvari. Vonandi kemst hann aftur á handboltavöllinn bráðum,“ sagði Wiegert.

Magdeburg er á toppi þýsku deildarinnar og hefur ekki tapað einum einasta leik þar í vetur. Liðið er með 36 stig, fimm stigum fyrir ofan næsta lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×