Viðskipti innlent

Segja skilið við Kringluna

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Joe Boxer yfirgefur Kringluna í lok mánaðar.
Joe Boxer yfirgefur Kringluna í lok mánaðar. Vísir/Vilhelm

Verslun Joe Boxer í Kringlunni verður lokað um mánaðamótin þar sem þau hafa engar bætur fengið eftir eldsvoðann fyrir tveimur árum. Eigandinn hyggst styrkja netverslun þeirra og horfir til Skandinavíu.

Þetta staðfestir Sveinbjörg María Ingibjargardóttir, eigandi Joe Boxer, í samtali við fréttastofu. Mbl greindi fyrst frá. Hún segir að merkið sé 23 ára en þau hafi verið með verslun í Kringlunni í alls tuttugu ár.

„Við erum að halda upp á tuttugu ára afmæli, það er afmælisútsala í gangi núna,“ segir hún.

Sveinbjörg hyggst færa verslunina alfarið yfir á netið þar sem hún hefur enn ekki fengið bætur eftir að eldur kviknaði í Kringlunni í júní 2024. Joe Boxer er ekki fyrsta verslunin sem hverfur á brott en Eirberg og Macland hafa einnig horfið á brott. 

Sjá nánar: Eldsvoði í Kringlunni

„Reitir réðu eitthvað fólk upp á þak og þeir kveiktu í og við erum að sækja bætur þaðan,“ segir Sveinbjörg og tekur fram að málið sé í höndum lögfræðinga.

Joe Boxer verslunin í Kringlunni er eina sérvöruverslun merkisins í heiminum að sögn Sveinbjargar en erlendis má einungis finna hana í stórverslunum. Þau hafi leyfi til að selja vörurnar einnig í Skandínavíu sem Sveinbjörg telur að verði sitt næsta skref.

Síðasti opnunardagur verslunarinnar er laugardaginn 31. janúar. Sveinbjörg minnir þá sem eiga inneignarnótur að nýta þær fyrir þann dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×