Innlent

„Það átti að taka mig í karp­húsið“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Árni íbúi Hólahverfis í Breiðholti er í vandræðum vegna ásælni menntaskælinga í bílastæði sem tilheyra íbúum.
Árni íbúi Hólahverfis í Breiðholti er í vandræðum vegna ásælni menntaskælinga í bílastæði sem tilheyra íbúum. Vísir/Bjarni

Íbúi í Breiðholti er orðinn langþreyttur á bílastæðaskorti fyrir utan eigið heimili. Hann hefur orðið fyrir hótunum þeirra sem sækja bílastæðin og segir íbúa ráðþrota.

Í Breiðholtinu er nóg um að vera, íþróttafélag, líkamsræktarstöð, sundlaug, menntaskóli og grunnskóli, allt í sömu götu og bílastæði því af skornum skammti. Fyrir því hafa íbúar í fjölbýlishúsum að Austurbergi beint á móti Fjölbrautarskólanum í Breiðholti fengið að finna fyrir. Einn þeirra Árni Kjartansson segir ástandið núna hafa keyrt um þverbak.

Upplifa sig ekki örugga

„Það er alltaf að bætast við starfsemi hérna. Þeir byggja nýja álmu við fjölbrautaskólann fyrir nokkrum árum og það hefði þurft bílakjallara undir henni. Svo er þessi kappakstur sem við heyrum í hérna núna, það er þvílík keyrsla hérna.“

Þá hafi íbúum verið hótað þegar þeir hafi mótmælt notkun annarra á bílastæðunum og segir Árni íbúa ekki upplifa sig örugga.

„Þetta er orðið mjög alvarlegt ef maður getur ekki vísað fólki frá án þess að vera hótað ofbeldi. Einu sinni voru tvær stelpur í bíl hérna, þær fóru bara yfir götuna aftur og komu með tvo gaura hérna til baka. Það átti að taka mig í karphúsið.“

Árni segir hótanirnar aldrei hafa endað með ofbeldi en segir það slæma tilfinningu að vera hótað fyrir utan eigið heimili. Íbúar hafi fengið nóg enda taki á að vita ekki hvort þeir geti fengið bílastæði fyrir utan eigið heimili. Það hafi áhrif á ferðafrelsi.

„Það má alveg segja það að íbúar eru ráðþrota. Það er ekkert flóknara en það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×